fbpx

3 titlar á Íslandsmótinu í hópfimleikum

Íslandsmótið í hópfimleikum fór fram um helgina í íþróttahúsi Gróttu á Seltjarnarnesi. Gerpla sendi lið til keppni í 3. flokki, 2. flokki, 1. flokki og meistaraflokki.

Á föstudeginum var keppt í meistaraflokki þar sem kvennalið Gerplu hafnaði í 2. sæti á eftir Stjörnunni. Þær hafa verið að bæta mikið í erfiðleikann hjá sér í stökkunum og hefur verið gaman að fylgjast með þeim. Mixliðið okkar stóð sig vel á mótinu og nældu sér í Íslandsmeistaratiltil.

Á laugardeginum byrjaði dagurinn á keppni hjá 3. flokki B þar sem við erum með eitt lið sem endaði í 3. sæti, þeim hefur farið mikið fram og lentu öll stökkin sín á mótinu. Í hlutanum þar á eftir var keppt í A deild þar sem við vorum með tvö lið. Lið 1 voru hæstar í dansi og dýnu með framúrskarandi æfingar og sigruðu mótið og urðu Íslandsmeistarar. Þær hafa unnið öll mótin á tímabilinu og sést að 3. flokkur er mjög sterkur hjá okkur í Gerplu þar sem lið 2 lenti í 2. sæti á eftir liði 1. Lið 2 hefur sýnt miklar framfarir og voru þær með hæstu einkunn á trampólíni á mótinu.  

Dagurinn endaði á keppni hjá KKE og 1. flokki. KKE áttu frábært mót og voru með hæstu einkunn á báðum stökkáhöldunum. Þeir hafa bætt sig mjög mikið á milli móta og lagt mikið í það að hreinsa stökkin sín sem skilaði sér vel á þessu móti. Þeir enduðu í 2.sæti rétt á eftir Stjörnunni.

Kvennaliðið okkar í 1. flokki byrjaði keppni á trampólíni sem byrjaði með smá hnökrum en stigu þær upp og skiluðu góðum gólfæfingum og dýnu. Þær enduðu í 3. sæti á mótinu eftir harða keppni við Selfoss og Stjörnuna. Þessi lið hafa verið mjög jöfn í getu og hefur hvert mót verið einskonar lendingarkeppni.

Á sunnudeginum keppti svo 2. flokkur og átti Gerpla tvö lið þar. 2. flokkur 1 gerði sér lítið fyrir og vann mótið með nokkrum yfirburðum. Þær eru því Íslandsmeistararar í 2. flokki. Lið 2 átti mjög góðan dag og enduðu þær í 4. sæti á mótinu stutt á eftir liðunum í 2. og 3.sæti. Það hefur verið gaman að fylgjast með 2. fl stelpunum í vetur, þær hafa bætt sig mjög mikið síðustu mánuði og verður gaman að fylgjast með þeim á næstu árum.

Nú er keppnistímabili þessara liða lokið og við tekur undirbúningur fyrir vorsýningu sem verður haldin 31. maí og 1. júní. Við erum ótrúlega stolt af öllum okkar flottu iðkendum og þjálfurum þeirra og hlökkum við til að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Myndir: https://gerpla.smugmug.com/2024/Islandsmt-hpfimleikum
Úrslit: https://live.sporteventsystems.se/Score/WebScore/3024?country=isl&year=-1

You may also like...