Gerpla nýtir sér tæknina við þjálfun
Fimleikafélagið Gerpla leitast við að nýta sér tæknina þegar kemur að þjálfun. Árið 2016 tók Gerpla í notkun þrjá nýja skjái sem gera þjálfara og iðkanda kleift að horfa á æfingar iðkandans saman á skjá rétt eftir að æfingar voru framkvæmdar. Þessi “Delay” tækni hefur þekkst vel erlendis en Gerpla er fyrsta íslenska fimleikafélagið til að taka þessa tækni í notkun hér á landi í þessari mynd. Í upphafi árs fór fram hönnunarvinna þar sem samsetning búnaðar og prófanir fóru fram. Sú vinna var unnin í samráði við starfsfólk fimleikar.is sem fékk til liðs við sig innlendan birgja vegna útfærlsu á tæknilegum hluta lausnarinnar. Tæknilausnin var síðan tekin í notkun á vormánuðum síðasta árs.
Að þjálfari og iðkandi geti í sameiningu horft á æfingar iðkanda með þessum hætti skapar sterkan grundvöll fyrir auknar framfarir hjá iðkanda. Einnig gerir þetta iðkanda kleift að vinna í ábendingum þjálfara þar sem iðkandi sér eftir hverja æfingu hvernig framfarir eru að þróast, jafnvel þó þjálfari sé að sinna öðrum í hópnum.
Mynd : Axel Ólafur yfirþjálfari með efnilegum nemanda að fara yfir æfingar
“Fyrir okkur í þjálfarateyminu er þetta mikil framför”, segir Axel Ólafur þjálfari og deildarstjóri hjá Gerplu. “Við leitum stöðugt leiða til að gera góða þjálfun enn betri. Þessi tækni gerir okkur betur í stakk búin að vinna með atriði hjá hverjum einstaklingi sem hraða framförum. Við erum mjög ánægð með þessa viðbót og sannfærð um að hún sé strax farin að skila okkar iðkendum góðum framförum”.
“Það er okkur mikilvægt að iðkendur hjá stærsta fimleikafélagi landsins finni fyrir stöðugri þróun og umbótun í starfi þjálfara. Þessi viðbót er liður í því endalausa þróunarstarfi sem við sinnum til að halda okkur í fremstu röð. Á sama tíma viljum við einnig að þjálfunin sé eins persónuleg og mögulegt er, þessi tækni gerir okkur það kleift.”, segir Olga Bjarnadóttir framkvæmdastjóri Gerplu.
Allar nánari upplýsingar veitir Olga Bjarnadóttir, framkvæmdastjóri Gerplu – olgab@gerpla.is og Sigurrós Pétursdóttir hjá fimleikar.is – sala@fimleikar.is