fbpx

Frábær árangur á Norður Evrópumótinu

Um liðna helgi fór fram Norður Evrópumótið í áhaldafimleikum í Dublin á Írlandi. Ísland sendi til leiks tvö lið, eitt kvennalið og eitt karlalið.

Á laugardeginum var keppt í liðakeppni og í fjölþraut. Karlaliðið hóf keppni í fyrsta hluta mótsins.

Stigahæstur af Íslensku strákunum var Ágúst Ingi Davíðsson með 76.750 stig sem er hans hæsta fjölþrautarskor og hafnaði í 9. sæti. Lið Íslands varð síðan í 8 sæti í liðakeppninni. Valdimar var að keppa á sínu fyrsta alþjóðlega móti fyrir Íslenska landsliðið og átti flott mót. Atli Snær bætti einnig sitt fjölþrautarskor frá því á NM í vor. Ágúst Ingi og Dagur komust síðan í úrslit á sunnudeginum.

Svo var komið að stúlkunum sem kepptu í seinni hlutanum á laugardeginum. Stúlkurnar áttu frábæran dag og lentu í 3. sæti í liðakeppninni. Thelma gerði sér svo lítið fyrir og náði silfurverðlaunum í fjölþraut eftir frábæran dag.

Thelma og Hildur komust svo í úrslit á sunnudeginum.

Kvennaliðið var skipað sex frábærum fimleikakonum og koma fimm af þeim úr Gerplu
Hildur Maja Guðmundsdóttir
Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Lovísa Anna Jóhannsdóttir
Rakel Sara Pétursdóttir
Thelma Aðalsteinsdóttir
Þóranna Sveinsdóttir úr Stjörnunni

Þjálfarar voru Andrea Kováts-Fellner og Þorgeir Ívarsson

Karlaliðið var skipað sex frábærum fimleikamönnum og koma fjórir af þeim úr Gerplu
Ágúst Ingi Davíðsson
Atli Snær Valgeirsson
Dagur Kári Ólafsson
Valdimar Matthíasson
Jón Sigurður Gunnarsson úr Ármanni
Lúkas Ari Ragnarsson úr Björk

Þjálfarar voru Viktor Kristmannsson og Ólafur Garðar Gunnarsson

Besti árangur Íslands frá upphafi á Norður Evrópumóti í áhaldafimleikum

Keppni í úrslitum á áhöldum fór svo fram á sunnudeginum. Thelma Aðalsteinsdóttir komst í úrslit á öllum áhöldum, Hildur Maja Guðmundsdóttir komst í úrslit á tvíslá, Dagur Kári komst í úrslit á tvíslá og Ágúst Ingi komst í úrslit á tvíslá og svifrá.

Thelma gerði sér lítið fyrir og sigraði öll áhöldin á sunnudeginum og er það í fyrsta sinn sem íslensk fimleikakona sigrar öll áhöld á Norður Evrópumóti. Þetta einstaka afrek fer í sögubækurnar og hefur Thelma aldeilis stimplað sig inn sem ein af okkar allra bestu fimleikakonum sem Ísland hefur átt.

Hildur Maja gerði síðan algjörlega frábærar æfingar á tvíslánni og varð í fjórða sæti. Dagur Kári varð í sjöunda sæti á tvíslá eftir flottar æfingar og Ágúst Ingi í því áttunda. Ágúst Ingi lauk svo keppni á svifránni með flotta frammistöðu og varð í fimmta sæti.

Þvílík helgi í sögu íslenskra fimleika. Til hamingju keppendur, þjálfarar og allir aðstandendur keppenda okkar, við erum alveg að rifna úr stolti yfir frammistöðu ykkar innan sem utan vallar. Þið eruð öll sem eitt frábærar fyrirmyndir fyrir komandi kynslóðir í fimleikunum á Íslandi. Framtíðin er klárlega björt í íslenskum fimleikum og við getum ekki beðið eftir komandi keppnistímabili.

Áfram Ísland og áfram Gerpla!

Myndir: https://fimleikasambandislands.smugmug.com/2024/NEMahaldafimleikum

You may also like...