Thelma Rut og Valgarð Íslandsmeistarar í áhaldafimleikum 2015
Íslandsmótið í áhaldafimleikum fór fram um helgina. Mótið var í umsjá fimleikadeildar Ármanns. Fyrirfram var búist við mjög spennandi keppni bæði í karla og kvennakeppninni.
Thelma Rut Hermannsdóttir var fyrir mótið fimmfaldur Íslandsmeistari í greininni en hún sigraði mótið árin 2008, 2010,2011,2012 og 2013. Hún gerði sér lítið fyrir og sigraði í fjölþraut og varð Íslandsmeistari í sjötta skiptið. Berglind Pétursdóttir, Sif Pálsdóttir og Thelma Rut höfðu allar unnið þennan stærsta titil í áhaldafimleikum fimm sinnum og því skráði Thelma Rut sig í sögubækurnar með þessum glæsta sigri.
Nýtt nafn var einnig skráð á bikarinn í karlaflokki en Valgarð Reinhardsson sigraði í fjölþraut í fyrsta skipti. Valgarð hefur verið í mikilli framför undanfarið og því er þetta eflaust ekki í seinasta skiptið sem Valgarð gerir atlögu að þessum titli.
Thelma Rut varð svo einnig Íslandsmeistari á gólfi í úrslitum á einstökum áhöldum. Gerplustúlkur áttu frábæran dag í úrslitum á einstökum áhöldum því að Norma Dögg Róbertsdóttir sem var Íslandsmeistari í fjölþraut í fyrra og í 3.sæti í fjölþrautinni núna í ár sigraði bæði á stökki og á slá.
Valgarð náði sér í tvo titla til viðbótar við fjölþrautar titilinn en hann sigraði á gólfi og á tvíslá. Hrannar Jónsson vann Íslandsmeistaratitilinn á stökki.
Það voru því alls 8 Íslandsmeistaratitlar sem fóru til Gerplu um helgina í fullorðinsflokki og mikil sigurgleði í herbúðum Gerplufólks að móti loknu.
Í unglingaflokki átti urðu Martin Bjarni Guðmundsson og Sævar Ingi Sigurðsson Íslandsmeistarar í æfingum á stökki og Telma Aðalsteinsdóttir í æfingum á slá og verður sannarlega gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni en Martin Bjarni var einnig í 2.sæti í fjölþraut og Telma varð í 3.sæti í fjölþraut.
Gerpluiðkendur hlutu einnig fjölmörg önnur verðlaunasæti á mótinu og erum við afar stolt af öllum okkar iðkendum, þjálfurum og síðast en ekki síst stuðningsmönnum okkar umhelgina. Ítarleg úrslit er hægt að nálgast á heimasíðu Fimleikasambands Íslands.
Á myndinni eru frá vinstri efri röð: Arnþór Daði Jónasson, Sævar Örn Sigurðsson, Eyþór Örn Baldursson, Tinna Óðinsdóttir, Norma Dögg Róbertsdóttir, Andrea Ingibjörg Orradóttir, Sigríður Ósk Bergþórsdóttir, Martin Bjarni Guðmundsson, Hrannar Jónsson og Guðjón Bjarki Hildarson.
Sitjandi eru frá vinstri: Atli Þórður Jónsson, Valgarð Reinhardsson, Thelma Rut Hermannsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir.