fbpx

Áhalda karla

ÁHALDAFIMLEIKAR KARLA

Áhaldafimleikar karla er einstaklingsíþrótt þar sem einstaklingurinn þarf að tileinka sér sjálfstæði og aga í vinnubrögðum sínum til að ná árangri. Íþróttin er líkamlega mjög krefjandi en einnig þarf tenging hugar og líkamsvitundar að vera góð til að einstaklingurinn geti byggt upp og sett saman flóknar æfingar. Nákvæmni og einbeiting er meðal lykilþátta við iðkun fimleika þar sem æfingar eru framkvæmdar við krefjandi aðstæður. Í áhaldafimleikum karla er keppt á 6 mismunandi áhöldum, gólfi, bogahesti, hringjum, stökki, tvíslá og svifrá en hvert áhald hefur sýna sérstöðu.

Gólfæfingar

Fimleikamaðurinn framkvæmir stökk og fimleikaæfingar á gólfinu sem sýna liðleika hans, styrk og jafnvægi. Hin hefðbundna gólfæfing er á bilinu 60-70 sekúndna löng. Þær kröfur eru gerðar til fimleikamannsins að hann nýti gólfflötinn og hafi viðkomu í hverju horni áhaldagólfsins.

Boghahestur

Á bogahesti sýnir fimleikamaðurinn skærasveiflur og hringsveiflur. Hringsveiflur eru þó algengari en skærasveiflur og það má segja að hringsveiflur séu uppistaðan í æfingum á bogahesti.
Fimleikamaðurinn sveiflar báðum fótum í hringi og gerir mismundandi æfingar á öllum hlutum bogahestsins. Hér reynir á styrk fimleikamannsins í öxlum, upphandleggjum og í baki. Bogahesturinn er talinn vera erfiðasta áhaldið í áhaldafimleikum karla ásamt æfingum í hringjum.

Hringir

Fimleikamaðurinn þarf að sýna fram á að hann búi yfir jafnvægi og styrk en einnig þarf hann að framkvæma kraftmiklar sveiflur án þess að hringirnir sveiflist fram og til baka. Fimleikamaðurinn sýnir styrk sinn í stöðum eins og vinkli, kross og flugvél. Að lokum þarf hann að gera afstökk sem þarf að vera í samræmi við erfiðleika æfinganna sem á undan komu.

Stökk

Fimleikamaðurinn hleypur 25 metra niður hlauparenning áður en hann stekkur á bretti og hoppar yfir hest. Vel heppnað stökk er undir því komið að fimleikamaðurinn hlaupi hratt og spyrni fast í brettið svo stökkið verði kraftmikið og hátt. Annar mikilvægur þáttur í stökkinu er rýmisvitund fimleikamannsinsins en hún gerir honum kleift að gera skrúfur og margföld heljarstökk eftir að spyrnt er frá stökkhestinum.

Tvíslá

Tvíslá karla krefst þess að fimleikamaðurinn sé sterkur í öxlum og upphandleggjum. Á tvíslánni framkvæmir fimleikamaðurinn æfingar sem sýna fram á samhæfingu hans , jafnvægi og styrk. Á tvíslá er þess krafist að fimleikamaðurinn geri æfingar sem sveifla undir ránni, í stuðning ofan á ránni og svo æfingar sem gerðar eru í upphandleggsstöðu.

Svifrá

Fimleikamaðurinn heldur í svifránna og framkvæmir svokallaða risasveiflur úr handstöðu. Kröfur eru gerðar um að fimleikamaðurinn geri flugæfingar þar sem hann sleppir ránni í æfingu og grípur aftur. Aðrar kröfur í æfingum á svifrá eru snúningar, skrúfur, að gerðar séu æfingar sem breyti um átt og æfingar þar sem mjaðmir eru nálægt ránni.
Afstökkið þarf að vera í samræmi við erfileika æfinganna sem á undan komu og gerðar eru kröfur um að fimleikamaðurinn lendi án þess að taka skref eða hopp.