Gerpla tvöfaldur Íslandsmeistari í 1.flokki
Íslandsmótið í hópfimleikum var haldið á Selfossi um liðna helgi og sendi Gerpla lið til keppni í meistaraflokki kvenna og 1. flokki kvenna og 1. flokki blandaðra liða samtals þrjú lið.
Fyrsta flokks lið Gerplu komu, sáu og sigruðu og héldu áfram sigurgöngu sinni eftir frábært keppnistímabil. Það hefur verið stígandi í báðum liðum frá áramótum og má segja að þau hafi toppað sig um helgina. Bættu við erfiðleika frá síðustu mótum og gerðu vel.
Enn og aftur geislaði af þessum liðum en liðsheild og samheldni er til mikillar fyrirmyndar og er ekki annað hægt en að hrífast með þeim þegar þau eru að framkvæma æfingar sínar.
Meistaraflokkur kvenna endaði í 2. sæti á eftir liði Stjörnunnar sem sigraði með nokkrum yfirburðum og ekki hægt að segja annað en að keppnisdagur stelpnanna í Gerplu hafi ekki farið eins og lagt var upp með. Það voru hinsvegar jákvæð teikn á lofti þar sem ný stökk litu dagsins ljós og verður að segjast að þær hafi barist fyrir sínu allt til enda.
Öll liðin okkar sem kepptu á Íslandsmótinu enduðu sem deildarmeistarar eftir veturinn með flest samanlögð stig eftir GK mót, Bikarmót og Íslandsmót.
Glæsilegur árangur hjá liðunum okkar og óskum við þeim og þjálfurum innilega til hamingju með keppnistímabilið!