Bikarmót í hópfimleikum
Bikarmót fimleikasambandsins fór fram í Egilshöll um helgina. Gerpla átti 10 lið á þessu móti. Á föstudeginum var keppt í flokki sem heitir stökkfimi eldri og átti Gerpla þar tvö lið. Meistaraflokkur lið 2 og 2. flokkur lið 2. Mfl lið 2 stóð uppi sem bikarmeistari í þeim flokki og 2. flokks liðið endaði í 3. sæti, þannig að helgin byrjaði mjög vel.
Á laugardagsmorguninum þá var komið að 3. flokki, þar sem keppt var í A deild, Gerpla á tvö lið í A deild en í þeirri deild eru liðin sem voru í 9 efstu sætunum á haustmótinu í nóvember. Lið 1 hefur verið með mikla yfirburði í þessum flokki og enduðu uppi sem Bikarmeistarar í 3. flokki með miklum yfirburðum. Lið 2 endaði í 4. sæti en þá ekki langt á eftir 3.- og 2. sætinu. Það er mjög gaman að sjá fjöldann í þessum liðum en nánast allir gera allar umferðir og allir iðkendur taka þátt í dansinum sem er mjög flott upp á að allir fái tækifæri til að keppa í eins mörgu og hægt er.
Eftir hádegi á laugardeginum var svo komið að 1. flokki og meistaraflokki. Í 1. fl var mikið undir því þar var ekki einungis keppt um bikarmeisaratitla heldur einnig um sæti á norðurlandamóti unglina sem fram fer í Lundi í Svíþjóð 20. apríl, en einugis tvö efstu liðin í hverjum kynjaflokki fá þáttökurétt á mótið. Gerpla átti tvö lið í 1. fl eitt í kvenna hluta og eitt í flokki blandaðra liða. Spennan var mjög mikil og langt síðan að keppnin um að komast á norðurlandamót hefur verið svona hörð. Kvennaliðið stóð sig mjög vel og endaði í öðru sæti einungis 0.450 á eftir Selfoss. En með þessu þá fengu þær þáttökurétt á Norðurlandamótið. Blandaða liðið okkar hafnaði einnig í öðru sæti og vann sér inn rétt til að keppa á Norðurlandamótinu í apríl.
Meistaraflokkur átti bikarmeistaratitil að verja en þær unnu hann fyrir ári síðan. Þær áttu frábæran dans og voru með hæstu einkunn þar en þær gerðu nokkur mistök á stökkáhöldunum sem urðu til þess að þær enduðu í 2. sæti á mótinu í þetta skipti.
Á sunnudagsmorgninum var það svo 3. flokkur B deild og KKE (eldir strákar) sem kepptu. 3. fl 3 hjá okkur keppir í B deild þetta árið, þær stóðu sig frábærlega og enduðu í 1. sæti í sinni deild eftir flottan dag á öllum áhöldum en þó sérstaklega í dansinum þar sem þær báru af öðrum liðum. Í KKE hlutunum þá erum við með ungt lið og stóðu þeir sig mjög vel og enduðu í 3. sæti.
Í seinasta hluta mótsins var keppt í 2. flokki, þar átti Gerpla eitt lið. Þær stóðu sig mjög vel og sigruðu mótið og eru því bikarmeistarar í 2. flokki, það hefur verið mjög gaman að fylgjast með þessum hóp því þær hafa verið að æfa mjög vel og tekið miklum framförum síðustu mánuði.
Við erum ótrúlega stolt af iðkendum okkar sem eru að standa sig svo vel og eru flottir fulltrúar okkar félags hvert sem þau fara. Síðast en alls ekki síst þá eru það þjálfararnir sem við erum svo þakklát fyrir, án þeirra værum við ekkert. Starfið sem þau leggja á sig og oftast langt umfram vinnutíma sem ætlast er til er svo frábært að við gætum ekki beðið um meira.
Takk fyrir okkur og áfram Gerpla!
Fleiri myndir: https://gerpla.smugmug.com/2024/Bikarmt-%C3%AD-hpfimleikum