ÁHALDAFIMLEIKAR KVENNA
Áhaldafimleikar kvenna er einstaklingsíþrótt þar sem einstaklingurinn þarf að tileinka sér sjálfstæði og aga í vinnubrögðum sínum til að ná árangri. Íþróttin er líkamlega mjög krefjandi en einnig þarf tenging hugar og líkamsvitundar að vera góð til að einstaklingurinn geti byggt upp og sett saman flóknar æfingar. Nákvæmni og einbeiting er meðal lykilþátta við iðkun fimleika þar sem æfingar eru framkvæmdar við krefjandi aðstæður. Keppt er á fjórum mismunandi áhöldum, stökki, tvíslá, slá og gólfi en hvert áhald hefur sýna sérstöðu.
Stökk
Er kraftmikið áhald, þar sem fimleikakonan hleypur í áttina að hestinum á sem mestum hraða til að framkvæma stökk með mikilli hæð, góðri lengd frá hestinum, óaðfinnanlegri framkvæmd og það mikilvægasta, að lendingin sé fullkomin án þess að taka skref. Fimleikamaðurinn hefur eingöngu eina tilraun til að gera fullkomið stökk.
Tvíslá
Til að framkvæma heila rútínu á tvíslánni þarf fimleikakonan að búa yfir miklum styrk, góðu úthaldi og fullkominni tímasetningu, Rútínan á að flæða frá upphafi til enda þar sem æfingar eru framkvæmdar hver á eftir annari án stopps. Sveifluæfingar á ránni fara með fimleikamanninn undir og yfir rárnar í allar áttir. Allar æfingar á tvíslánni byrja og enda í handstöðu. Sveiflur, risasveiflur, snúningar, flugæfingar þar sem fimleikmaðurinn grípur í sömu rá eða hina ránna eru skylda áður en framkvæmt er fullkomið afstökk.
Jafnvægisslá
Jafnvægissláin er hugsanlega það áhald sem krefst hvað mestrar einbeitingar. Jafnvægissláin er 120 cm á hæð og 10 cm breið, þar sem fimleikakonan þarf að sýna áræðni, glæsileika, flæði í hreyfingum og ótrúlega mikla einbeitingu. Rútínan á jafnvægisslánni þarf að innihalda samsetningu af snúningum, hoppum og akróbatik æfingum sem framkvæmdar eru fram, aftur og til hliðar, einnig þarf að framkvæma tvær til þrjár æfingar sem tengdar eru saman til að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru.
Gólfæfingar
Þar sem dans og stökkseríur eru framkvæmdar í takt við tónlist ásamt því að persónuleiki og sköpunarhæfileikar fimleikakonunnar í hreyfingum fá að njóta sín. Fimleikakonan verður að nýta allan gólfflötinn og hefur hún eingöngu 90 sekúndur til þess. Það þarf mikið þrek til að framkvæma þrjár til fjórar stökkseríur innan tímarammans ásamt hoppseríum, snúningum og að sýna mikið listfengi í gegnum æfinguna.
Um þrepin
Íslenski fimleikastiginn er gefinn út á fjögurra ára fresti og hefur sú útgáfa haldist í hendur við nýjar dómarareglur Alþjóðlega Fimleikasambandsins (FIG). Það er mikilvægt fyrir þjálfara og dómara að kynna sér vel innihald fimleikastigans sem og alþjóðlegar dómarareglur FIG en einnig getur verið mjög gagnlegt fyrir iðkendur og forráðamenn að kynna sér uppbyggingu og markmið stigans.
Fimleikastiginn er byggður upp sem keppnisæfingar í áhaldafimleikum en er ekki tæmandi yfir þær grunnæfingar sem nauðsynlegar eru í þjálfun fimleika. Fimleikastiginn er nú byggður upp á átta þrepum ætluðum til æfinga og keppni í áhaldafimleikum kvenna. Fimm efstu þrepin eru ætluð til keppni á mótum FSÍ en lægstu þrjú þrepin eru ætluð til keppni á innanfélags- og vinamótum og til leiðbeiningar um uppbyggingu kennslu fimleikaæfinga í áhaldafimleikum. Neðstu þrepin, 7. og 8. þrep, eru ætluð til notkunar innan félaga sem viðmið fyrir einfaldar samsettar grunnæfingar þar sem hver er að keppa við sjálfan sig og er stigagjöfin einfalt matskerfi. Uppbygging fimleikastigans er að 1. og 2. þrep eru léttar frjálsar æfingar sem styðjast við reglur FIG. 3., 4. og 5. þrep eru skylduæfingar með vali á hverju áhaldi sem hafa sérstakt erfiðleikagildi. Félögin semja hreyfingar á jafnvægisslá og gólfi að undanskyldri einni línu á jafnvægisslá sem er forsamin fyrir öll félög.
Helstu markmið með fimleikastiganum
- Að vera leiðbeinandi afl í fimleikum kvenna á Íslandi, bæði í vali á æfingum og samsetningum æfinga en þó ekki tæmandi yfir þær grunnæfingar sem nauðsynlegar eru í þjálfun fimleika
- Að auka gæði íslenskra fimleika og auka breidd innan áhaldafimleikanna
- Að skapa réttlátan samkeppnisgrundvöll í keppni í áhaldafimleikum
- Að það sé eðlilegur stigsmunur á milli þrepa og að það taki að meðaltali tvö ár að ná hverju þrepi
- Að undirbúa keppendur fyrir keppni í frjálsum æfingum
- Ef iðkandi hefur ekki náð þrepi á 24 mánuðum og nær því ekki að flytjast upp um þrep er mælt með því að prufa hópfimleika og athuga hvort styrkleikar iðkandans liggi frekar þar.
Uppbygging einkunnar
Einkunn byggist upp á tveimur einkunnum, D einkunn og E einkunn. D einkunn samanstendur af erfiðleikagildum, sérkröfum og samtengingum. E einkunn byrjar í 10,00 og frá henni dragast framkvæmdarvillur og listfengi. Meðaltal E einkunna er fundið og lagt við D einkunn til þess að fá lokaeinkunn. Lokaeinkunn er reiknuð með þremur aukastöfum, engin námundun.
Ítarlegri upplýsingar um fimleikastiga kvenna er að finna á eftirfarandi slóð: https://fimleikasamband.is/domarareglur-kvenna/
Fimleikafatnaðurinn fæst í afgreiðslu Gerplu.
Keppnisfatnaður 5., 4. og 3. Þreps
Keppt er í svörtum og rauðum fimleikabol. Hægt er að kaupa keppnisfatnað í Gerplubúðinni, Versölum 3 eða í vefverslun gerplubudin.is