EM í áhaldafimleikum
Evrópumótið fór fram á Rimini Ítalíu, strákarnir kepptu frá 24.-28. apríl og stelpurnar frá 2.-5. maí.
Karlalandsliðið var skipað Gerpludrengjunum Atla Snæ Valgeirssyni, Ágústi Inga Davíðssyni, Degi Kára Ólafssyni, Martin Bjarna Guðmundssyni og Valgarði Reinhardssyni
Besti árangur íslenska karlalandsliðisins í liðakeppni á Evrópumóti, heildarstig 231.692 stig og 19. sæti. Valgarð átti síðan besta árangur í fjölþraut með 78.297 stig. Dagur Kári átti einnig frábæra seríu á bogahestinum sem skilaði honum 13.966 stigum og 14. sæti.
Strákarnir stóðu sig frábærlega á mótinu, geggjuð liðsheild og frábær andi innan hópsins. Frábærar fyrirmyndir.
Drengjalandsliðið var skipað Gerpludrengnum Kára Pálmasyni og Lúkasi Ara Ragnarssyni úr Björk. Þetta var fyrsta Evrópumót Kára. Kári var að glíma við leiðinleg meiðsli í aðdraganda mótsins sem gerði það að verkum að hann keppti bara á þrem áhöldum. Hann stóð sig virkilega vel á tvíslá, svifrá og á bogahesti. Dýrmæt reynsla sem þessi ungi og efnilegi fimleikamaður hefur nælt sér í. Kári er á fyrsta ári í unglingaflokki og er á mikilli uppleið. Gaman verður að fylgjast með honum á komandi árum.
Kvennalandsliðið var skipað Gerplukonunum Hildi Maju Guðmundsdóttur, Lilju Katrínu Gunnarsdóttur og Thelmu Aðalsteinsdóttur, því miður misstu þær Margréti Leu Kristinsdóttur úr Stjörnunni út rétt fyrir brottför vegna meiðsla.
Liðakeppnin var hörð og þar sem liðið var með 3 keppendur þá töldu þær allar á öllum áhöldum. Þær lentu í 22. Sæti með heildarstig 143.527. Efrir smá hnökra á fyrsta áhaldinu, sýndu þær og sönnuðu hversu frábærar íþróttakonur þær eru og kláruðu mótið mjög vel. Frábær liðsheild og flottar fyrirmyndir. Thelma varð svo stigahæst í fjölþraut með 49.064 stig
Stúlknalandsliðið var skipað Gerplustúlkunum Kristjönu Ósk Ólafsdóttur og Rakel Söru Pétursdóttur og með þeim voru Stjönrustúlkurnar Sigurrós Ásta Þórsdóttir og Kolbrún Eva Hólmarsdóttir ásamt Gróttustúlkunni Auði Örnu Þorbjarnardóttur. Liðið hafnaði í 21. sæti með 130,363 stig.
Kristjana og Rakel voru að keppa á sínu fyrsta Evrópumóti og var mikil spenna hjá þeim að stíga sín fyrstu skref á svona stórmóti. Virkilega flott reynsla hjá þessum ungu og efnilegu fimleikastúlkum. Stigahæst af íslensku stúlkunum varð Kristjana Ósk með 43.532 stig.