Frábær árangur á GK meistaramóti
5 titlar af 6 mögulegum á GK meistaramóti í áhaldafimleikum
Síðasta áhaldafimleikamót vetrarins var haldið í gær sunnudag í Versölum. Keppt var í frjálsum æfingum í þrem flokkum hjá báðum kynjum. Fullorðinsflokki, unglingaflokki, stúlkna- og drengjaflokki. Gerpla átti keppendur í öllum flokkum.
GK meistarar í fullorðinsflokki urðu þau Agnes Suto og Dagur Kári Ólafsson, í öðru sæti varð Martin Bjarni Guðmundsson og í því þriðja Ágúst Ingi Davíðsson.
GK meistari í unglingaflokki kvenna varð Kristjana Ósk Ólafsdóttir
GK meistari í stúlknaflokki varð Rakel Sara Pétursdóttir og GK meistari í drengjaflokki varð Kári Pálmason hlutskarpastur og í öðru sæti varð Daníel Theodór Glastonbury.
Keppt var einnig til verðlauna á einstöku áhöldum þar sem okkar fólk raðaði inn verðlaunapeningum
Í drengjaflokk kepptu Kári Pálmason og Daníel Theodór Glastonbury. Daníel sigraði æfingar á bogahesti. Kári sigraði fimm áhöld, gólf, hringi, stökk, tvíslá og svifrá.
Í unglingaflokki karla áttum við einn keppanda hann Snorra Rafn William Davíðsson hann var að keppa í fyrsta sinn í unglingaflokki og gerði sér lítið fyrir og sigraði æfingar á bogahesti.
Í fullorðinsflokki karla átti Gerpla alla keppendur og var hart barist um titlana á einstökum áhöldum. Martin sigraði 4 áhöld af 6, æfingar á gólfi, hringjum, stökki og svifrá. Dagur Kári sigraði síðan æfingar á bogahesti og tvíslá.
Í stúlknaflokki áttum við tvo keppendur þær Rakel Söru Pétursdóttur og Anítu Eik Davíðsdóttur. Rakel Sara sigraði æfingar á stökki og tvíslá, ásamt því að lenda í öðru sæti á gólfi. Aníta gerði sér lítið fyrir á sínu fyrsta móti í frjálsum æfingum og varð í 2. sæti á jafnvægisslá frábær árangur hjá henni.
Í unglingaflokki kvenna kepptu Kristjana Ósk Ólafsdóttir, Lilja Katrín Gunnarsdóttir og Hekla Hákonardóttir. Kristjana sigraði æfingar á gólfi og fékk síðan verðlaun á stökki, tvíslá og jafnvægisslá. Lilja Katrín sigraði æfingar á tvíslá og fékk verðlaun á jafnvægisslá. Hekla átti virkilega gott mót í gær og varð í 4. Sæti í fjölþraut, frábær árangur eftir erfiðan meiðslavetur, virkilega ánægjulegt að hún sé komin sterk til baka.
Í fullorðinsflokki kvenna átti Agnes Suto frábæran dag og fór heim með sigur á öllum áhöldum. Virkilega flottur endir hjá þessari mögnuðu íþróttakonu.
Stigameistarar FSÍ – 3 af 4 koma úr Gerplu
Stigameistarar FSÍ eru valdir eftir úrslitum á áhöldum vetrarins, sá keppandi sem er efstur á hverju áhaldi fyrir sig fær flest stig á því áhaldi á því móti. Mótin sem telja eru bikarmót, Íslandsmót og GK meistaramót stendur uppi sem sigurvegari í Stigakeppni FSÍ. Keppt er í fullorðinsflokki og unglingaflokki.
Stigameistari í fullorðinsflokki Karla varð Martin Bjarni Guðmundsson
Stigameistari í fulloðrinsflokki kvenna varð Agnes Suto
Stigameistari í unglingaflokki kvenna varð Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Glæsilegur endir á flottu keppnistímabili. Til hamingju öll! Áfram Gerpla!
Fleiri myndir má finna á myndasíðu Gerplu https://gerpla.smugmug.com/2023/GK-mot-i-ahaldafimleikum/
Úrslit mótsins https://live.sporteventsystems.se/Score/WebScore/2632