fbpx

Gerpla Evrópumeistari í hópfimleikum

Lið Gerplu braut blað í sögu fimleika á Íslandi í dag þegar liðið sigraði í úrslitum á Evrópumótinu í hópfimleikum sem fram fór í Malmö í Svíþjóð.

Kvennalið Gerplu var einstaklega sannfærandi í úrslitunum; „við slátruðum þeim“ sagði Ásdís Guðmundsdóttir og glotti við tönn og bætti svo við að þær hafi m.a. sett sér það markmið að vinna mótið og gera það með yfirburðum. Það má með sanni segja að stúlkurnar hafi unnið sannfærandi sigur því þær hlutu hæstu einkunn á öllum áhöldum. Einkunnir þeirra voru 16,283 á gófli, 17,450 á dýnu og 16,500 á tramolíni. Samanlögð einkunn þeirra var 50,233. Í öðru sæti var lið Svíþjóðar með heildareinkunnina 47,433 og í þriðja sæti voru Norðmenn með 46,416.

Liðið skipa: Anna Guðný Sigurðardóttir, Ásdís Guðmundsdóttir, Björk Óðinsdóttir, Eva Dröfn Benjamínsdóttir, Fríða Rún Einarsdóttir, Glódís Guðgeirsdóttir, Hafdís Jónsdóttir, Hrefna Þ. Hákonardóttir, Íris Mist Magnúsdóttir, Jóhanna Gunnarsdóttir, Karen Sif Viktorsdóttir, Kristjana Sæunn Ólafsdóttir, Rakel Reynisdóttir, Sif Pálsdóttir, Sigrún Dís Tryggvadóttir.

Áhorendur í Baltisku höllinni voru um 5000 og mikil stemming var í áhorfendapöllunum á meðan mótinu stóð. Fjölmargir Íslendingar voru meðal áhorfenda og skemmtu sér að sjálfsögðu konunglega, enda árangur Íslands algjörlega frábær því auk gullverðlaunanna þá vann unglingalandslið Íslands til bronsverðlauna og karlalandsliðið varð í fjórða sæti í úrslitum sem er einstaklega góður árangur en þetta er fyrsta skipti sem Ísland sendir karlalið til keppni á Evrópumóti. Þetta er einnig í fyrsta skipti sem keppni fer fram í unglingaflokki á Evrópumóti og þar voru mörg jöfn lið mætt til keppni og því árangur unglingalandsliðsins gríðarlega góður.

Hamingjuósumr hefur að sjálfsögðu rignt yfir stúlkurnar á sjálfum mótsstaðnum, þær virðast hafa heillað alla upp úr skónum og þá skiptir engu máli hvort um er að ræða Svía eða aðra fimleikaáhugamenn í Evrópu. Eins berast stúlkunum og félaginu stöðugt hamingjuóskir frá stofnunum, bæjarfélögum, samtökum og einstaklingum á Íslandi.

Heildarúrslit frá mótinu er að finna hér 

Nánar verður fjallað um mótið þegar heim er komið en stúlkurnar og föruneyti eru væntanlega til landsins á mánudagskvöld.

Til hamingju Gerpla og til hamingju Ísland.

You may also like...