GK mót yngri
GK mót yngri fór fram um helgina 7.- 9. febrúar í umsjá Gerplu í íþróttahúsinu í Digranesi. Alls voru um 800 keppendur á mótinu í 67 liðum frá 13 félögum.
Á þessu móti var keppt í 5. flokki, 4. flokki, KKY og stökkfimi. 4. flokkur skiptist í þrjár deildir, A, B og C deild og 4. flokkur stökkfimi.
Á föstudeginum var keppt í 4. flokk B deild þar sem Gerpla 3 mætti til leiks og stóðu sig vel og enduðu þær í 8. sæti.

Á laugardeginum byrjaði dagurinn á stökkfimi þar sem Gerpla kk og Gerpla 5 tóku þátt. Bæði lið áttu mjög flott mót og enduðu strákarnir í 2. sæti og stelpurnar í 4. sæti. Stelpurnar voru einnig mjög nálægt fyrsta sætinu á gólfi og dýnu, þar sem þær voru í öðru sæti á þeim áhöldum.


Gerpla 1 og 2 tóku svo þátt í A deild í 4.flokki og er Gerpla eina félagið sem er með tvö lið í þeirri deild. Stelpurnar stóðu sig mjög vel og voru með flottar gólfæfingar og hrein og fín stökk. Gerpla 1 endaði í 3.sæti og Gerpla 2 í 5.sæti.

Laugardagurinn endaði svo á keppni í 4.flokki C deild þar sem Gerpla var með eitt lið og enduðu þær í 7. sæti í þeirri deild.

Á sunnudeginum var svo keppt í 5.flokki og KKY. Gerpla var með tvö lið í fyrsta hlutanum í 5.flokki og eru það stelpurnar sem voru að keppa á sínu fyrsta móti hjá fimleikasambandinu. Stelpurnar voru ótrúlega flottar í dansinum og voru þær að gera flottar æfingar á dýnu og trampólíni. Í þessum flokki er ekki keppt til verðlauna heldur fá allir keppendur viðurkenningarskjal til að taka með sér heim. Gleðin skein í gegn hjá stelpunum og áttu þær flott mót og verður gaman að fylgjast með þeim í framtíðinni.

Mótið gekk ótrúlega vel og var gaman að sjá alla þessa flottu krakka mæta og sýna hvað þau eru búin að vera dugleg að æfa sig.
Áfram Gerpla!
Fleiri myndir: https://gerpla.smugmug.com/2025/GK-mot-yngri