fbpx

Glæsilegur árangur á heimsbikarmótinu í Varna Búlgaríu

Gerplukonurnar Hildur Maja Guðmundsdóttir og Thelma Aðalsteinsdóttir lögðu af stað fyrir viku síðan að keppa á tveim heimsbikarmótum. Fyrra mótið var haldið í Varna, Búlgaríu dagana 23.-26. maí og síðara mótið er haldið í Koper, Sloveníu dagana 30. maí-2. júní og hefst mótið á morgun fimmtudag.

Mótin eru liður í mótaröð World Challenge Cup á vegum Alþjóða fimleikasambandsins FIG. Thelma keppti á þrem áhöldum í Varna og Hildur Maja á fjórum. Þær stöllur gerðu sér lítið fyrir og komust í úrslit báðar á gólfi. Thelma átti einnig sína allra bestu sláaræfingu og fékk 13,000 sem er hæðsta einkunn sem hún hefur fengið fyrir æfingar á slá á erlendu móti. Þær skiluðu síðan á úrslitadeginum virkilega glæsilegum æfingum á gólfi, Thelma varð í fjórða sæti og Hildur í því sjöunda. Stórglæsilegur árangur hjá þeim í Búlgaríu.

Þær eru mættar yfir til Koper í dag, eftir smá brösulegt ferðalag þar sem fluginu þeirra frá Frankfurt var aflýst. Góð ráð dýr og með dyggri aðstoð fengu þær æfingaaðstöðu í Frankfurt rétt hjá flugvellinum til að hreyfa þreytta líkama fyrir næsta flug sem var seint í gærkvöldi. Smá auka ævintýri hjá þeim.

Fyrsta æfingin er í dag hjá þeim í Koper og svo podium æfing seinna í dag fyrir mótið sem hefst á morgun með keppni á stökki og tvíslá. Keppt er svo á slá og gólfi á föstudaginn.

Við óskum þeim innilega til haminingju með frábæran árangur í Varna og góðs gengis í Koper. Við erum hrikalega stolt af þeim og hlökkum til að fylgjast með þeim næstu daga.

Áfram Thelma og Hildur!

You may also like...