fbpx

50 ár frá stofnun Íþróttafélagsins Gerplu

Kæra Gerplufólk!

Í dag eru 50 ár frá stofnun Íþróttafélagsins Gerplu.

50 ár frá því að ótrúlegt hugsjónafólk tók sig saman og stofnaði íþróttafélagið okkar. Þau stóðu í ströngu á sínum tíma við að búa félaginu almennilega æfingaumgjörð og festu kaup á fasteign að Skemmuvegi í Kópavogi þar sem Gerplu var búið heimili. Fjármögnun þessa var ekki átakalaus, og fór svo að nokkrir einstaklinganna gengu svo langt að veðsetja sínar eigin fasteignir til tryggingar fjármögnuninni. Þvílíkur áhugi, þvílíkur vilji, þvílíkt hugrekki og fórnfýsi segi ég nú bara um leið og við öll sem á eftir komum þökkum innilega fyrir okkur!

Það fór vel um Gerplu á Skemmuveginum og margar frábærar minningar sem Gerplufólk á þaðan. Þar var sett upp ein fyrsta fimleikagryfjan sem var mikil bylting, eitthvað sem börnum í fimleikum í dag þætti óhugsandi að hafa ekki. Annað sem iðkendum okkar í dag þætti óhugsandi væri að þurfa að rúlla út og setja upp öll áhöld í byrjun hverrar æfingar, og taka þau svo saman og ganga frá aftur inn í tækjageymslu að æfingum loknum, því aðrar íþróttir voru einnig stundaðar á Skemmuveginum.

Það var mikil bylting þegar okkar frábæra fimleikahús reis í Versölum og félagið flutti þangað á árinu 2005. Eitt fullkomnasta fimleikahús landsins og þótt víðar væri leitað á þeim tíma. Það var ógnarstórt í samanburði við Skemmuveginn og var haft á orði að Gerplu tækist aldrei að fylla þetta hús eða nýta það til fulls. En viti menn, um 10 árum síðar var það fimleikahús alveg sprungið utan af félaginu. Hópfimleikar höfðu rutt sér heldur betur til rúms til viðbótar við áhaldafimleikana og það var orðið erfitt að halda æfingar fyrir áhaldafimleikana og hópfimleikana í sama húsi. Iðkendafjöldinn jókst stöðugt og langir biðlistar urðu til. Við tók mikil vinna við útfærslur á því hvernig mætti bæta við húsakostinn og leiddi hún loks til þess að nýtt fimleikahús í Vatnsenda í Kópavoginum var opnað á árinu 2018 við mikinn fögnuð okkar allra í Gerplu. Gott samstarf Gerplu við Kópavogsbæ hefur ávallt skipt miklu fyrir þróun félagsins og þökkum við fyrir það.

En þó svo húsnæði, æfingaaðstaða og áhöld skipti afar miklu máli í starfsemi fimleikafélags, þá er ljóst að það eru iðkendurnir, þjálfararnir, sjálfboðaliðarnir og annað starfsfólk sem heldur félaginu uppi. Þau eru hjarta félagsins og það eru þau sem hvetja okkur áfram alla daga til að vinna að því að búa iðkendunum sem besta umgjörð, mesta öryggið, bestu þjálfarana og góða félagslega aðstöðu.

Árangur þessa samspils í gegnum tíðina af góðri umgjörð, þjálfurum í hæsta gæðaflokki og iðkendum sem brenna fyrir íþróttina eins og iðkendur okkar í Gerplu gera, hefur ekki látið á sér standa í gegnum tíðina. Iðkendur Gerplu standa iðullega á verðlaunapallinum í öllum flokkum, kynjum og tegundum fimleika. Gerpla á nánast undantekningarlaust keppendur á þeim alþjóðlegu mótum sem Ísland tekur þátt í, og standa sig eins og hetjur þar sem annars staðar.

Við erum einstaklega stolt af félaginu okkar, tilurð þess, árangri og tilveru, og fyrir hönd stjórnar Gerplu vil ég óska öllu Gerplufólki innilega til hamingju með 50 ára afmælið sem við munum fagna rækilega síðar á árinu þegar aðstæður til þess hafa batnað. Framtíð Gerplu er áfram björt!

Ragnheiður M. Ólafsdóttir

formaður stjórnar Gerplu

You may also like...