Iceland Classic 2025

Iceland Classic var haldið dagana 27. febrúar-2. mars í Versölum, þetta er í sjötta sinn sem mótið er haldið og í annað sinn sem Iceland Classic International fer fram í frjálsum æfingum. Í ár fengum við góða gesti á mótið frá Slóveníu sem voru með keppendur í senior-, junior- og youthflokki kvennamegin. Við fengum einnig fyrirspurnir frá félögum í Danmörku, Bretlandi og Dubai sem gleður okkur mjög að möguleiki sé að stækka mótið á næstu árum. Einnig fengum við keppendur frá Ármanni, Björk, Fjölni, Keflavík, Stjörnunni og Gerplu.

Tæplega 700 keppendur fóru í gegnum Versali um helgina. 

Keppt var í þrepum íslenska fimleikastigans, Landsreglum og í þrepum Special Olympics í annað sinn. Mótið var í níu hlutum og hófst keppni í fyrsta sinn á fimmtudegi seinni part og haldið áfram á föstudagsmorgni. Mótið er orðið það stórt að keppa þurfti í þrjá og hálfan dag. Mótinu lauk á sunnudagskvöldi. 

Keppt var í 6. þrepi karla og kvenna, þar sem keppendur eru að stíga sín fyrstu skref í fimleikastiganum og svo var keppt í 5.-1. þrepi karla og kvenna og landsreglum í nokkrum aldursflokkum.  

Iceland Classic International var haldið í annað sinn og þar var keppt í frjálsum æfingum í þrem flokkum kvenna og karlamegin. Keppt var í drengjaflokki, stúlknaflokki, unglingaflokki og fullorðinsflokki hjá báðum kynjum. 

Á föstudeginum 28.febrúar var keppt í liðakeppni og í fjölþraut. Liðakeppnin var þannig uppsett að fimm voru saman í liði, fimm kepptu og þrír hæstu á hverju áhaldi töldu til liðs.  Kvennamegin voru sex lið skráð til leiks og þrjú lið karlamegin. Einnig var keppt í fjölþraut í öllum flokkum. Á laugardeginum var svo keppt til úrslita á áhöldum þar sem sex stigahæstu keppendur úr hverjum flokki á hverju áhaldi kepptu til úrslita. Mótið er tilvalið til að hita upp fyrir keppnistímabilið í frjálsum æfingum en bikarmótið verður haldið eftir 3 vikur. 

Við viljum þakka öllum keppendum, þjálfurum, dómurum, stuðningsmönnum sem fylltu stúkuna alla helgina og okkar frábæra starfsfólki og sjálfboðaliðum sem gerðu helgina ógleymanlega fyrir alla keppendur. 

Sérstaklega viljum við þakka styrktaraðilum mótsins fyrir þeirra aðkomu að mótinu: GK á Íslandi, H verslun, Hreppamjólk, Skopp, Subway, Saffran, Keiluhöllin, Serrano og Ágúst Ingi Davíðsson fasteignasali.

Myndir: https://gerpla.smugmug.com/2025/Iceland-Classic-25

You may also like...