Íslandsmót í hópfimleikum
Íslandsmótið í hópfimleikum fór fram í Ásgarði um liðna helgi. Gerpla sendi lið til keppni í 3. flokki, 2. flokki, 1. flokki og meistaraflokki.
Stelpurnar í 3. flokki 1 gerðu sér lítið fyrir og nældu sér í Íslandsmeistaratitil eftir harða keppni við Stjörnuna og Selfoss. Gerpla lið 2 bættu sig um rúmlega þrjú sig á milli móta og var rétt við verðlaunasæti en enduðu í því fjórða. Stelpurnar í 3. flokki 3 kepptu í B-deild, bættu sig um rúm fjögur stig á milli móta og enduðu í 7. sæti í riðlinum. Frábært mót hjá þriðjaflokks liðunum okkar öllum og góður stígandi á milli móta.


Í 2. flokki kepptu tvö Gerplulið. Bæði lið voru með frábærar bætingar á milli móta og varð lið A í 3. sæti og lið B varð í áttunda sæti. Það er frábær árangur að ná að tefla fram tveimur liðum í öðrum flokki, gefa þannig öllum tækifæri að spreyta sig á keppnisgólfinu. 2. flokkur hefur verið að ná miklum bætingum í vetur og búið að vera gaman að fylgjast með þeim í vetur.

Bikarmeistarar 1. flokks Gerplu mættu til leiks á sunnudeginum. 1. flokkur Gerplu hefur verið með mikla yfirburði síðustu tvö ár en áttu því miður ekki sinn besta dag hvorki á dýnu né trampólíni. Röð mistaka varð til þess að þær lentu í 2. sæti þrátt fyrir flottustu gólfæfingar mótsins. Þær voru glæsilegar á gólfinu og uppskáru frábæra einkunn og Íslandsmeistaratitil á gólfi. Þær nældu sér í mikilvæga reynslu í þessari keppni sem þær munu nýta í komandi framtíð. Fimleikastúlkurnar okkar í 1. flokki eiga framtíðina fyrir sér í íþróttinni og nú tekur við stórt tímabil hjá þeim öllum. Eldra árið í 1. fl. fer upp í meistaraflokk og yngra árið heldur áfram á sinni vegferð að norðurlandamóti unglinga. 1.flokkur á eftir að eiga í harðri baráttu um sæti á Norðurlandamóti unglinga sem verður haldið næsta vor og við erum full tilhlökkunar fyrir því verkefni.

Stelpurnar okkar í meistaraflokki Gerplu mættu fullar sjálfstrausts á Íslandsmótið enda tímabilið búið að ganga vel og mikill stígandi búinn að vera í liðinu. Þær hófu keppnina á gólfi og áttu mjög flottan dans og uppskáru hærri einkunn en á bikarmóti. Það voru hinsvegar of mörg mistök á dýnu sem urðu til þess það var á brattan að sækja í svona harðri og jafnri keppni. Þær uppskáru Íslandsmeistaratitil á trampólíni, 2. sæti í fjölþraut og keppnisrétt á Norðurlandamóti fullorðinna sem haldið verður í Laugardalshöllí nóvember. Við erum gríðarlega stolt af metnaðarfullum iðkendum í meistaraflokki kvenna sem eru að ná miklum bætingum og við hlökkum til að fylgjast með þeim á þeirri vegferð að Norðurlandamóti fullorðinna.

Nú er keppnistímabili þessara liða lokið og við tekur undirbúningur fyrir vorsýningu sem haldin verður í Versölum 2. og 3. júní.
Myndir af mótinu https://gerpla.smugmug.com/2023/Islandsmot-i-hopfimleikum




