Jón Finnbogason sæmdur gullmerki Gerplu
Jón Finnbogason var á vorsýningu Gerplu sæmdur gullmerki Gerplu. Hann ætti að vera flestum kunnugur enda uppalinn Gerplumaður og brautryðjandi karlafimleika hjá félaginu. Móðir Jóns, Elsa Jónsdóttir var formaður félagsins til margra ára og hafði Jón því góða fyrirmynd í félagsstörfum. Eftir að keppnisferli í fimleikum lauk tóku við félagsstörf hjá Gerplu. Jón sat í stjórn félagsins frá 2003-2013 en þar sat hann sem formaður frá 2006. Starfstímabil Jóns einkenndist af miklum breytingum og gríðarlegum vexti. Á því tímabili fluttist Gerpla úr iðnaðarhúsnæði á Skemmuvegi yfir í glæsilegt húsnæði í Versölum. Gerpla fimmfaldaðist að stærð á starfstíma Jóns. Jón hefur mikla yfirsýn og réttlætiskennd og einkenndi það störf hans hjá félaginu ásamt óbilandi áhuga og drifkrafti. Eftir að Jón lét af störfum sem formaður Gerplu hélt hann áfram að starfa að félagsmálum í þágu Kópavogsbúa í íþrótta- og tómstundaráði og hjá íþróttahreyfingunni í stjórn ÍSÍ. Jón er vel að þessu kominn og við hæfi að veita honum gullmerkið á 45 ára afmæli Gerplu.