fbpx

Kvennalið og blandað lið unglinga Evrópumeistarar

Ísland kom sá og sigraði í kvennaflokki og unglingaflokki blandaðra liða á Evrópumótinu um liðna helgi. Liðin voru stórkostleg á allan hátt og áttu keppnisgólfið.

Gerpla átti þrjá glæsilega fulltrúa á kvennaliðinu en það voru þær Bryndís Guðnadóttir, Andrea Hansen og Guðrún Edda Sigurðardóttir. Liðsheildin var geggjuð og sjálfstraustið var í botni. Við erum mjög stolt af stelpunum öllum og þessu magnaða afreki en við erum ekki síður stolt af þjálfarateyminu sem kemur allt úr Gerplu þeim Björk Guðmundsdóttur, Kristni Þór Guðlaugssyni, Magnúsi Óla Sigurðssyni og Rakel Másdóttur. Svona afrek er ekki unnið á einni nóttu heldur kostar þetta mikla vinnu og fórnir sem þau öll hafa sko sannarelega fært til að ná þessum frábæra árangri.

Í mix liðinu voru þau Helen María Margeirsdóttir, Kristjana Ómarsdóttir og Birgir Hólm Þorsteinsson úr Gerplu, og einnig var Michal Říšský einn af þjálfurum liðsins.

Stúlknaliðið vann til bronsverðlauna eftir harða baráttu við Svíþjóð og Danmörku. Gerpla átti einnig glæsilega fulltrúa í stúlknaliðinu, þær eru Lilja Þórdís Guðjónsdóttir, Sara María Tandradóttir, Elín Þóra Jóhannesdóttir og Margrét Júlia Jóhannsdóttir. Eyrún Inga Sigurðardóttir var dansþjálfari liðsins.

Drengjaliðið átti frábæran dag og bætti sig um eitt sæti frá undanúrslitum. Fulltrúar Gerplu í drengjaliðinu voru þeir Atli Fannar Hlynsson, Björn Helgi Devine, Jökull Nói Ívarsson og Kristinn Stefánsson.

Blandað lið fullorðina enduðu í 5. sæti eftir erfiða byrjun á gólfinu. Þau áttu frábæran keppnisdag í undanúrslitum en úrslitadagurinn var ekki alveg að vinna með þeim. Þau urðu fyrir því óláni að missa liðsmann á síðustu æfingunni úti fyrir keppni sem setti strik í reikninginn. Þau voru hins vegar landi og þjóð til mikils sóma sýndu góða liðsheild og koma reynslunni ríkari heim.

Gerpla átti glæsilega fulltrúa í blandaða liðinu þær Dagný Lind Hreggviðsdóttur, Hrafnhildi Tinnu Brynjólfsdóttur og Evu Halldórsdóttur. Gerpla átti einnig helming þjálfarateymisins en það voru þau Adam Bæhrenz Björgvinsson og Yrsa Ívarsdóttir.

Til hamingju iðkendur, þjálfarar og aðstandendur!

Meira frá EM: https://fimleikasamband.is/frettir/

Myndir: https://fimleikasambandislands.smugmug.com/2024/EM-i-hopfimleikum

You may also like...