fbpx

MalarCup, alþjóðlegt vinamót í Svíþjóð

Dagana 31.okt -3. nóvember fór fram alþjóðlegt áhaldafimleikamót sem kallast MalarCup sem er árlegt vinamót haldið í Stokkhólmi, Svíþjóð. Mótið í ár er haldið í 41. skipti og skiptist mótið í keppni Future Stars og svo MalarCup þar sem keppt er eftir alþjóðlegu reglum í áhaldafimleikum á báðum mótum en í Future Stars er keppt með auka sérkröfur og erfiðleikagildi fá tvöfalt gildi á við FIG reglur. Gerpla sendi níu stúlkur til leiks í Future Stars og þrjár stúlkur til keppni í MalarCup.

Keppendur Gerplu á MalarCup voru:

Alma Rún Oddsdóttir
Aníta Eik Davíðsdóttir
Berglind Edda Birksidóttir
Elfa María Reynisdóttir
Hanna Ísabella Gísladóttir
Hekla Hákonardóttir
Ísabella Maack Róbertsdóttir
Kristjana Ósk Ólafdóttir
Margrét Dóra Ragnarsdóttir
Rakel Ásta Egilsdóttir
Saga Ólafsdóttir
Sólný Inga Hilmarsdóttir

Þjálfarar voru Ferenc Kováts, Lajos Kiss og Auður Ólafsdóttir

Keppnisdagur 1: Future Stars
Elfa María Reynisdóttir gerði sér lítið fyrir og varð í þriðja sæti í fjölþraut. Keppt var einnig í liðakeppni þar sem Gerplustelpur urðu í fimmta sæti. Á sunnudaginn verður svo keppt til úrslita á áhöldum, átta keppendur komast í úrslit á hverju áhaldi.

Keppnisdagur 2: MalarCup
Á laugardegi kepptu Berglind Edda, Elfa María, Hekla og Kristjana Ósk saman í liðakeppni á MalarCup. Í ár var fyrirkomulagið þannig að fækkað var um einn liðsmann í hverju liði, þannig að fjórir eru saman í liði, allir keppa og svo telja stigahæstu þrír einstaklingarnir til liðseinkunnar.

Gerplustúlkurnar okkar urðu í tíunda sæti í liðakeppninni. Berglind, Kristjana og Hekla kepptu allar í unglingaflokki og varð Kristjana stigahæst með 42.099 stig sem skilaði henni 6.-7. sætinu í fjölþraut. Berglind og Hekla áttu fínan dag. Elfa María keppti aftur í dag í flokki stúlkna. Elfa átti virkilega flott mót annan daginn í röð, hún varð í fimmta sæti í fjölþraut og kom sér inn í úrslit á þrem áhöldum eins og hún var einmitt búin að gera deginum áður í Future Stars. Frábærir tveir dagar hjá henni.

Dagur 3 – Úrslit
Á sunnudegi var keppni á einstökum áhöldum. Fimm stúlkur voru í úrslitum þær Elfa María, Kristjana Ósk, Margrét Dóra, Rakel Ásta og Sólný Inga. Ísabella var síðan tilbúin ef kallið kæmi þar sem hún var varamaður inn á tvö áhöld. 

Frábær dagur hjá okkar dömum, Kristjana skilaði flottum tvíasláar æfingum og vann sér bronsverðlaun, Margrét Dóra of Sólný kepptu á stökki og sýndu tvö glæsileg stökk, Margrét gerði sér litið fyrir og sigraði stökkið og Sólný varð í 4. sæti grátlega nálægt bronsinu. Á tvíslá keppti Elfa María og sýndi glæsilegar æfingar og varð í 2. sæti. Á jafnvægisslánni kepptu Elfa Maria, Rakel Ásta og Margrét, ótrúlega glæsilegar æfingar hjá þeim þar sem Elfa Maria stóð uppi sem sigurvegari og Rakel Ásta í 5. sæti og Margrét í því sjötta. Þá var komið að gólfæfingum, Elfa og Sólný kepptu þar til úrslita, frábærar æfingar hjá þeim báðum annað gullið í hús fyrir hana Elfu Maríu og Sólný var í því áttunda.

Virkilega lærdómsrík helgi fyrir iðkendur okkar og frábært veganesti fyrir framtíðina.
Áfram Gerpla!

You may also like...