Norður Evrópumót í Gerplu um helgina
Norður Evrópumótið í áhaldafimleikum fer fram núna um helgina, dagana 21.-22. september. Mótið verður haldið í fimleikasal Íþróttafélagsins Gerplu, Versölum 3, 201 Kópavogi og hefst keppni báða daga kl. 14:00. Sjö þjóðir munu berjast um titilinn í kvennaflokki og sex í karlaflokki. Á laugardeginum verður keppt í liðakeppni, en fimm keppendur skipa hvert lið, fjórir af þeim keppa á hverju áhaldi en aðeins þrjár hæstu einkunnirnar telja til stiga inn í liðakeppnina. Samhliða liðakeppninni fer fram einstaklingskeppni. Á sunnudeginum verður keppt á einstökum áhöldum, en þar verður krýndur sigurvegari á hverju áhaldi fyrir sig. Einungis átta bestu á hverju áhaldi frá laugardeginum fá keppnisrétt á sunnudeginum.
Gerplustúlkan Sonja Margrét Ólafsdóttir er að keppa aftur í fyrsta skipti eftir langan meiðslavetur á síðasta tímabili. Hún fór síðast í keppnisbolinn á HM 2018. Það verður gaman að fylgjast með henni keppa á ný. Því miður er Thelma Aðalsteinsdóttir ekki meðal keppenda sökum meiðsla sem hún er að vinna sig uppúr. Agnes Suto Tuuha er heldur ekki á meðal keppenda en hún ákvað að láta þetta gott heita í áhaldafimleikum og skipti yfir hópfimleika. Hver veit nema við sjáum hana í keppnisgallanum á Norðurlandamótinu í hópfimleikum í Noregi í nóvember.
Íslandsmeistarinn og Gerplumaðurinn Valgarð Reinhardsson mun keppa um helgina, en hann er einnig að undirbúa sig fyrir HM í byrjun næsta mánaðar og þar freistar hann þess að krækja sér í farseðil til Tokyo. Ásamt Valgarði eru þeir Arnþór Daði Jónasson sérfræðingur á bogahesti, Guðjón Bjarki Hildarson og Martin Bjarni Guðmundsson allir úr Gerplu.
Karlalandsliðið skipa:
Arnþór Daði Jónasson
Guðjón Bjarki Hildarson
Jónas Ingi Þórisson
Martin Bjarni Guðmundsson
Valgarð Reinhardsson
Varamaður:
Atli Snær Valgeirsson
Kvennaliðið skipa:
Birta Björg Alexandersdóttir
Irina Sazonova
Margrét Lea Kristinsdóttir
Nanna Guðmundsdóttir
Sonja Margrét Ólafsdóttir