Special Olympics 2023 í Berlín
Þann 10.-25. júní fór fram Special Olympics í Berlín. Þrír iðkendur Gerplu kepptu fyrir hönd Íslands í áhaldafimleikum.
Leikarnir stóðu yfir í tvær vikur með allskyns viðburðum sem þau tóku þátt í. Sem dæmi má nefna æfingu sem fór fram í íþróttahúsi í bænum Kempen í Þýskalandi, opnunarhátíð á 17. júní og margt fleira. Fyrri helming ferðarinnar æfðu þau mikið úti og gerðu þrek og undirbúning fyrir mótið en seinni vikuna fengu þau aðstöðu inni í fimleikasal til að æfa sig.
Iðkendum er raðað í deildir á leikunum sem þau keppa síðan í til úrslita svo allir séu að keppa við sína jafningja í íþróttinni. Þau kepptu tvo daga samtals, fyrri daginn fór fram forkeppni sem gildir 25% af heildarstigum mótsins og seinni daginn var keppt til úrslita.
Úrslitahelgin í áhaldafimleikum fór fram 23.-24. júní.
Við erum gífurlega stolt af þeirra árangri á mótinu og þau voru Gerplu og áhaldafimleikum á Íslandi til mikils sóma. Þau sýndu öll stórglæsilegar æfingar eins og sást á úrslitunum og jafnframt fengu þau góða upplifun og reynslu á stórmóti. Öll eru þau gríðarlega flottar fyrirmyndir fyrir yngri iðkendur í félaginu og íþróttinni.
Elva Björg Gunnarsdóttir keppti í Level 2 og vann sér inn silfur í fjölþraut. Hún fékk jafnframt silfurverðlaun á stökki og á slá og bronsverðlaun á tvíslá.
Henni var raðað í erfiðustu deildina í sínu þrepi á slá og var því næst hæst á því áhaldi á mótinu.
Tómas Örn Rúnarsson keppti í Level 3. Það er erfiðasta þrepið á mótinu. Tómas lenti í þriðja sæti á bogahesti, stökki og svifrá. Hann var í fjórða sæti í fjölþraut, á gólfi, hringjum og svifrá.
Davíð Þór Torfason keppti í Level 2. Hann vann sér inn silfur í fjölþraut. Hann vann líka annað sæti á gólfi, bogahesti, hringjum og á stökki. Svo gerði hann sér lítið fyrir og vann gull fyrir æfingar á svifrá.
Þjálfarar okkar keppenda voru þær Eva Hrund Gunnarsdóttir og Lilja Árnadóttir. Þær eru báðar frá Gerplu og erum við stolt af því að eiga þær sem landsliðsþjálfara í þessari grein.




Hún Agnes Suto fór sem fjölmiðlafulltrúi út á leikana fyrir hönd okkar í Gerplu og náði hún stórglæsilegum myndum og myndböndum af mótinu sem við erum þakklát fyrir að eiga. Þannig náðum við hin að fylgjast spennt með leikunum á meðan á þeim stóð. Það er jafnframt dýrmætt fyrir keppendur að eiga góðar myndir sem hjálpar þeim að varðveita skemmtilegar minningar um ókomna tíð. Hægt er að skoða myndirnar á gerpla.smugmug.com/2023/Special-Olympics-2023-Berlin Annað efni eins og viðtöl og myndbönd má finna inná Instagram síðu Gerplu @ithrottafelagidgerpla
Iðkendur voru styrkt með keppnisfatnaði frá H verslun og fengu sérhannaðan keppnisfatnað frá þeim. Ferðin var jafnframt styrkt af fyrirtækjunum RJR/Sportvörur og Hirzlunni og þökkum við þeim fyrirtækjum kærlega fyrir stuðninginn! Einnig var ferðin styrkt af forráðamönnum okkar allra yngstu iðkenda, ungunum, í vetur sem greiddu frjáls framlög til styrktar ferðarinnar.
Íþróttafélagið Gerpla óskar keppendum, þjálfurum og aðstandendum innilega til hamingju með frábæran árangur
