Stórkostlegur árangur á NM, Hildur Maja Norðurlandameistari í fjölþraut
Norðurlandamótið í áhaldafimleikum fór fram í Osló um liðna helgi. Keppt var var í liðakeppni, fjölþraut og til úrslita á áhöldum í bæði unglingaflokki og fullorðinsflokki. Ísland sendi fjögur lið til keppni þar sem keppnisfyrirkomulagið er fimm-fimm-þrír. Fimm liðsmenn í liðinu, fimm fara upp á hvert áhald og þrír stigahæstu telja til liðseinkunnar á hverju áhaldi fyrir sig. Ísland átti full keppnislið í öllum flokkum. Gerpla átti fimm keppendur í karlalandsliðinu, þrjá í kvennalandsliðinu, tvær í unglingalandsliði kvenna og einn í unglingalandsliði karla.
Keppendur Gerplu
Atli Snær Valgeirsson
Ágúst Ingi Davíðsson
Dagur Kári Ólafsson
Martin Bjarni Guðmundsson
Valgarð Reinhardsson
Hildur Maja Guðmundsdóttir
Lilja Katrín Gunnarsdóttir
Thelma Aðalsteinsdóttir
Kári Pálmason
Kristjana Ósk Ólafsdóttir
Rakel Sara Pétursdóttir
Kvennalandslið Íslands Norðurlandameistari í liðakeppni
Kvennalandslið Íslands kom sá og sigraði í liðakeppni á Norðurlandamótinu um helgina. Þær sigruðu með 3,252 stigum. Á eftir þeim kom lið Noregs og í þriðja sæti lið Danmerkur. Frábær dagur hjá okkar konum, þar sem þær mættu einbeittar til leiks, sjálfstraustið í botni og sýndu mikinn glæsileika og útgeislun á keppnisgólfinu. Þetta er í annað sinn í sögunni að kvennaliðið okkar sigrar Norðurlandamót fullorðinna. Þvílíkur árangur og skrifa þær sig í sögubækurnar.
Liði var skipað Hildi Maju, Lilju Katrínu, Thelmu ásamt Margréti Leu Stjörnunni og Freyju Hannesdóttur Gróttu.
Karlalandslið Íslands fékk bronsverðlaun í liðakeppni
Karlalandslið Íslands varð í þriðja sæti í liðakeppni á Norðurlandamótinu um helgina. Þetta er í fyrsta sinn í sögu mótsins sem íslenska karlalandsliðið vinnur til verðlauna. Þvílíkur árangur hjá strákunum okkar. Norðurlandameistarar í karlaflokki varð svo lið Noregs og í öðru sæti lið Svía. Þeir voru frábærir á keppnisgólfinu, stemningin innan liðsins er með einsdæmum góð og stuðningurinn sem þeir veita hvorum öðrum algjörlega frábær.
Liðið var skipað Atla Snæ, Ágústi Inga, Degi Kára, Martin Bjarna og Valla.
Unglingalandslið kvenna fékk silfurverðlaun í liðakeppni
Unglingalandslið Íslands í kvennaflokki varð í öðru sæti á Norðurlandamótinu um helgina. Norðurlandameistarar er lið Noregs og í þriðja sæti lið Finlands. Frábær árangur hjá þessum ungu og efnilegu stúlkum. Þær voru virkilega glæsilegar á keppnisgólfinu. Liðið var skipað þeim Kristjönu Ósk, Rakel Söru ásamt Kolbrúnu Evu og Sigurrósu úr Stjörnunni og Auði Örnu úr Gróttu.
Unglingalandslið karla fékk bronsverðlaun í liðakeppni
Unglingalandslið Íslands í karlaflokki varð í þriðja sæti á Norðurlandamótinu um helgina. Norðurlandameistarar er lið Noregs og í öðru sæti lið Finlands. Frábær árangur hjá þessum ungu og efnilegu strákum. Frábær stemming og liðsheild hjá piltunum á mótinu. Liðið var skipað Kára Pálmasyni ásamt Bjarkarstrákunum Lúkasi Ara, Ara Frey og Stefáni Mána, og Sóloni Sverrissyni úr KA.
Hildur Maja Norðurlandameistari í fjölþraut, á stökki og jafnvægisslá
Hildur Maja átti frábært mót á Norðurlandamótinu um helgina. Hún mætti vel unfirbúin til keppni, einbeitingin og gleðin skein úr augunum hennar. Hildur Maja er búin að vinna virkilega vel síðustu mánuði og er hún að uppskera vel eftir alla vinnuna sem hún hefur lagt inn.
Hún gerði sér lítið fyrir og sigraði fjölþrautina og varð Norðurlandameistari í áhaldafimleikum kvenna. Hildur fór ekki falllaust í gegnum mótið en sýndi frábæran karakter og kláraði mótið með stæl. Þetta er í annað sinn sem íslenskur keppandi vinnur þennan titil og síðast var það þegar Hildur Maja var eins árs 😊 árið 2006. Hildur Maja komst í úrslit á þrem áhöldum eftir keppnina á laugardeginum, Hún vann sér inn sæti á stökki, jafnvægisslá og á gólfinu. Hildur Maja var hvergi nærri hætt, hún bætti enn betur í safnið á sunnudeginum þegar keppt var til úrslita á áhöldum þar sem hún varð Norðurlandameistari á stökki og á jafnvægisslá. Hún fékk svo silfurverðlaun á gólfinu. Frábær helgi hjá þessari mögnuðu íþróttakonu.
Thelma Aðalsteinsdóttir Norðurlandameistari á gólfi
Thelma Aðalsteinsdóttir átti glæsilegt mót og sýndi og sannaði hversu frábær íþróttakona hún er, hún var með fall á fyrsta áhaldi en kláraði svo mótið með stæl og varð í öðru sæti í fjölþrautinni rétt á eftir vinkonu sinni. Thelma framkvæmdi í fyrsta sinn á erlendu móti glænýja æfingu sem við vonum að fái nafnið hennar í alþjóðlegu dómarabókinni, æfingin er weiler framhringur beint í Comaneci heljarstökk. Ef Thelma framkvæmir þessa æfingu á FIG móti þá mun æfingin fá nafnið Aðalsteinsdóttir. Þetta er í fyrsta sinn í sögunni sem tvær íslenskar fimleikakonur lenda á palli á Norðurlandamóti. Thelma komst í úrslit á þrem áhöldum eftir keppni á laugardeginum. Hún vann sér inn sæti á tvíslá, jafnvægisslá og á gólfinu. Thelma gerði sér lítið fyrir og varð Norðurlandameistari á gólfi.
Valgarð Reinhardsson Norðurlandameistari á gólfi
Valli átti stórkostlegt mót um helgina, hann varð í fjórða sæti í fjölþraut, grátlega nálægt verðlaunasæti en hann fékk sitt allra besta fjölþrautaskor á alþjóðlegu móti þegar hann fór í fyrsta sinn yfir 80 stigin. Frábær árangur og gefur honum byr undir báða vængi fyrir komandi Evrópumót. Valli komst í úrslit á fimm áhöldum eftir keppnina á laugardeginum. Hann vann sér inn sæti á gólfi, hringjum, stökki, tvíslá og svifrá. Valli gerði sér svo lítið fyrir og varð Norðurlandameistari á gólfi, eftir frábærar æfingar og geggjaðar lendingar. Hann bætti svo í safnið og fékk silfurverðlaun á svifrá og bronsverðlaun á tvíslá.
Martin Bjarni með silfurverðlaun á stökki
Martin Bjarni Guðmundsson komst í úrslit á tveim áhöldum um helgina og var varamaður inn í úrslit á því þriðja. Hann vann sér inn sæti á gólfi og svifrá. Martin var klár þegar kallið kom þar sem einn keppanda dróg sig úr keppni á stökki. Hann keppti því á þrem áhöldum á sunnudeignum. Martin sýndi tvö glæsileg stökk sem skilaði honum í annað sætið. Virkilega glæsilegur árangur hjá honum. Hann varð svo í fimmta sæti á gólfi og fjórða á svifrá með glæsilegar seríur.
Rakel Sara með þrenn verðlaun í úrslitum á áhöldum
Rakel Sara Pétursdóttir var stigahæsti unglingurinn í fjölþraut og lenti í fimmta sæti. Hún vann sér inn í úrslit á öllum áhöldum eftir keppni á laugardeginum. Hún gerði sér lítið fyrir og vann til þrennra verðlauna. Hún fékk silfurverðlaun fyrir æfingar sínar á stökki og gólfi, bronsverðlaun fyrir æfingar sínar á jafnvæfisslá. Glæsilegur árangur hjá ungri og efnilegri fimleikastúlku. Rakel Sara er á sínu fyrsta ári í unglingaflokki og verður gaman að fylgjast með henni á næstu vikum undirbúa sig fyrir næsta stóra verkefni sem verður Evrópumót unglinga á Ítalíu.
Kristjana Ósk Ólafsdóttir komst í úrslit á tveimur áhöldum. Hún keppti til úrslita á jafnvægisslá og á gólfi. Framkvæmdi glæsilegar æfingar sem skiluðu henni fimmta sætinu. Kári Pálmason komst í útslit á stökki, hann framkvæmdi tvö glæsileg stökk sem skiluðu honum í fjórða sæti. Dagur Kári Ólafsson komst í úrslit á tvíslá, hann hefur verið að bæta við sig miklum erfiðleika á áhaldinu og með hverju mótinu bætir hann í reynslubankann. Hann lenti í sjötta sæti á tvíslá.
Við viljum senda sérstakar hamingjuóskir til fimleikafólksins okkar sem og til allra íslensku keppendanna en einnig til þjálfarana sem standa á bakvið þessar frábæru fyrirmyndir. Þjálfararnir eru þau Ferenc Kováts, Andrea Kováts-Fellner, Þorgeir Ívarsson, Svava Björg Örlygsdóttir, Róbert Kristmannsson, Viktor Kristmannsson, Alek Ramezanpour, Axel Ólafur Þórhannesson og Sigurður Hrafn Pétursson.
Fleiri myndir: https://fimleikasambandislands.smugmug.com/2024/Nordurlandamot-%C3%AD-ahaldafimleikum