Thelma Rut leggur bolinn á hilluna!
Thelma Rut okkar tilkynnti á samfélagsmiðlum í gær að hún hafi ákveðið að leggja bolinn og ólarnar á hilluna. En Thelmu er sexfaldur Íslandsmeistari og hefur æft í Gerplu frá unga aldri og seinustu árin með meistaraflokk Gerplu undir leiðsögn Guðmundar Þ. Brynjólfssonar ásamt öðrum þjálfurum.
Í facebook færslu Thelmu segir hún:
“Þetta eru stór kaflaskipti en það mun eitthvað spennandi bíð mín í næsta kafla. Þessi rússíbanaferð hefur verið ótrúleg í alla staði og mun vera partur af mér alla ævi. Þessi 19 ár í fimleikum og 10 ár í landsliðinu hafa gefið mér og kennt mér svo margt ásamt því að hafa mótað þá konu sem ég er í dag. Ég hef fengið að ferðast svo mikið og kynnast fólki frá allskonar löndum sem mörgum getur ekki dreymt um að fá að gera. Þessum árangri sem ég hef náð á mínum ferli hefði ég ekki fagnað ef það væri ekki fyrir fjölda fólks sem stóð með mér í gegnum þetta alltsaman. Ég er ótrúlega stolt af árangrinum sem ég hef afrekað en það er kominn tími til að byrja á öðrum kafla. Ég mun samt alltaf vera fimleikastelpa í húð og hár og hver veit nema ég dusti rykið af bolunum einhverntimann og rifji upp gamla takta. “
Gerpla þakkar Thelmu óteljandi skemmtilegar og eftirminnilegar stundir og óskar henni á sama tíma alls hins besta á nýjum vettvangi en hún stefnir á háskólanám í haust. Hér fyrir neðan er einnig linkur á frétt rúv um málið.
http://www.ruv.is/node/932630