Thelma vinnur gull á tvíslá, Valli og Dagur með silfur og brons
Gerplufólk gerði góða hluti á Norður-Evrópumótinu sem haldið var í Halmstad í Svíþjóð um helgina.
Í liðakeppni voru 11 þjóðir mættar í kvennaflokki og níu þjóðir í karlaflokki. Kvennalandsliðið sem var skipað Thelmu Aðalsteinsdóttur, Hildi Maju Guðmundsdóttur, Lilju Katrínu Gunnarsdóttur og Kristjönu Ósk Ólafsdóttur úr Gerplu ásamt Margréti Leu Kristinsdóttur úr Björk áttu frábæran dag og enduðu í 4. sæti aðeins 0,4 stigum frá bronsinu. Engu að síður mjög ungt lið sem eru að sýna mjög flotta fimleika. Í fjölþrautinni voru það Gerplustúlkur sem voru efstar af öllum Norðurlandabúum en Hildur Maja varð í 8. sæti með 47,498 stig og Thelma í 9. sæti með 47,168 stig. Lilja Katrín varð í 29. sæti og Kristjana Ósk í 36. sæti. Þær síðarnefndu eru báðar ennþá í unglingaflokki svo þetta er frábær árangur hjá þeim.
Á sunnudeginum var keppt til úrslita á einstökum áhöldum. Thelma komst í úrslit á tvíslá og kom sá og sigraði og uppskar gull og Norður-Evrópumeistaratitil. Thelma sem meiddi sig á æfingunni á föstudeginum lét það ekki á sig fá og keppti með glænýtt afstökk á tvíslá. Þetta er frábær árangur hjá Thelmu sem gefur tóninn fyrir komandi tímabil.
Hildur Maja komst í úrslit á gólfi. Hún var efst inn í úrslitin og átti glæsilegar æfingar á sunnudeginum sem skiluðu 4.sæti aðeins 0,034 stigum frá bronsinu. Lilja Katrín komst í úrslit á stökki. Hún varð í 2.sæti inn í úrslitin og endaði svo í 4.sæti í úrslitum með tvö glæsileg stökk aðeins 0,033 stigum frá bronsinu. Það má því segja að stelpurnar hafi verið við bronsverðlaun um helgina bæði liðið og Lilja og Hildur. Þetta er frábær árangur hjá stelpunum sem er að skila sér eftir þrotlausar æfingar. Þjálfarar stelpnanna eru Andrea Kováts-Fellner, Ferenc Kováts og Þorgeir Ívarsson. Andrea og Þorgeir fylgdu þeim á mótið.
Karlaliðið skipuðu Gerpludrengirnir Arnþór Daði Jónasson, Atli Snær Valgeirsson, Ágúst Ingi Davíðsson, Dagur Kári Ólafsson, Martin Bjarni Guðmundsson og Valgarð Reinhardsson. Liðið byrjaði keppnina af krafti og voru í 2. sæti eftir fyrstu fjögur áhöldin. Bogahesturinn féll ekki með þeim þennan daginn og varð niðurstaðan 6. sæti af níu liðum. Strákarnir áttu engu að síður mjög gott mót og voru í níu úrslitum á sunnudeginum. Bestum árangri í fjölþraut náði Valgarð en hann varð í 8.sæti með 76,098 stig, Dagur Kári varð í 9. sæti með 75,264 stig, Martin varð í 14. sæti með 74,432 stig, Ágúst Ingi í 26. sæti með 72,264 stig, Atli Snær varð í 32. sæti en Arnþór keppti ekki á öllum áhöldum.
Valgarð keppti til úrslita á stökki, svifrá og tvíslá en hann vann til silfurverðlauna á tvíslánni með hæstu einkunn sem hann hefur náð á því áhaldi 13,7 og var aðeins 0,05 stigum frá gullinu. Hann varð svo í 6. sæti á stökki og 4. sæti á svifrá. Martin keppti einnig til úrslita á þremur áhöldum stökki, gólfi og svifrá. Hann endaði í 4. sæti á stökki og 6.sæti á gólfi og svifrá. Dagur Kári keppti til úrslita á tvíslá og vann til bronsverðlauna með frábæra seríu og einkunn uppá 13,45. Ágúst Ingi keppti til úrslita á hringjum og gólfi. Hann endaði í 8. sæti á hringjum og 5. sæti á gólfi.
Glæsilegur árangur hjá strákunum. Með þeim voru þjálfararnir Róbert Kristmannsson sem er jafnframt þeirra félags- og landsliðsþjálfari sem og Ólafur Garðar Gunnarsson.
Norður-Evrópumótið var síðasta mót ársins hjá þessu magnaða íþróttafólki og við tekur æfingatímabil þar til nýtt keppnistímabil hefst í febrúar á næsta ári.
Við óskum keppnisfólkinu okkar, þjálfurum þeirra og aðstandendum innilega til hamingju með frábæran árangur og hlökkum til að fylgjast með á nýju ári.
Myndir: Fimleikasamband Íslands