fbpx

Uppskeruhátíð Gerplu

Uppskeruhátið Gerplu var haldin hátíðleg laugardaginn 18. janúar í veislusal félagsins. Mikill og góður árangur náðist á árinu 2024 og voru iðkendur, þjálfarar og sjálfboðaliðar heiðraðir, ásamt því að Sólveig framkvæmdarstjóri Fimleikasambandsins veitti starfsmerki FSÍ.

Afreksbikar í áhaldafimleikum kvenna hlaut Thelma Aðalsteinsdóttir. Thelma átti sitt besta fimleikaár á sínum ferli og standa Norður-Evrópumeistaratitillar á öllum áhöldum og annað sæti í fjölþraut uppúr. Þetta er frábært afrek sem aldrei hefur verið gert áður. Hún er Íslandsmeistari í fjölþraut, stökki, slá og gólfi. Thelma keppti á tveim heimsbikarmótum í vor, þar sem hún gerði sér lítið fyrir og komst í úrslit á stökki, slá og gólfi. 

Afreksbikar í áhaldafimleikum karla fékk Valgarð Reinhardsson.  Hann er okkar fremsti fimleikamaður í karlaflokki undanfarin ár. Hann varð Íslandsmeistari í fjölþraut, á Norðurlandamótinu var hann grátlega nálægt verðlaunapalli í fjölþraut þar sem hann varð í 4. sæti eingöngu 0.400 stigum frá þriðja sætinu. Hann komst í úrslit á fimm áhöldum og gerði sér lítið fyrir og varð Norðurlandameistari á gólfi ásamt því að vinna til silfurverðlauna fyrir æfingar sínar á svifrá og bronsverðlaun fyrir æfingar sínar á tvíslá. Valgarð og liðið hans unnu söguleg bronsverðlaun í liðakeppninni, var þetta í fyrsta skipti sem Ísland hefur náð á pall á norðurlandamóti.. Frábær uppskera á Norðurlandamótinu hjá Valgarð. Hann keppti einnig mjög vel á Evrópumótinu á Ítalíu í apríl. Hann var hluti af feikna sterku liði Íslands á Evrópumótinu þar sem liðið varð í 19. sæti sem er þeirra besti árangur til þessa. Frábært ár að baki hjá honum. 

Í hópfimleikadeild fékk Andrea Hansen, Bryndís Guðnadóttir og Guðrún Edda Sigurðardóttir afreksbikarinn. Stelpurnar voru hluti af kvennalandsliði Íslands í hópfimleikum á Evrópumótinu í Baku í október á síðasta ári. Þar varð Íslenska landsliðið Evrópumeistari með nokkuð öruggum hætti. Andrea, Bryndís og Guðrún Edda roru mikilvægir liðsmenn fyrir liðið, þar sem þær voru framúrskarandi í dansinum sem liðið vann á mótinu, liðið vann einnig dýnu.

Hvatningabikarinn hlaut Lilja Katrín Gunnarsdóttir. Hún hefur tekið miklum framförum á stuttum tíma og er virkilega gaman að fylgjast með henni blómstra í greininni. Síðasta keppnistímabil hjá Lilju var hennar fyrsta í fullorðinsflokki og á sínu fyrsta ári varð hún í fjórða sæti í fjölþraut á Íslandsmótinu og bikarmeistari með liði sínu. Hún var síðan  valin í kvennalandslið Íslands í öll verkefni landsliðins árið 2024. Hún keppti á Norðurlandamótinu í Osló, þar sem hún varð Norðurlandameistari í liðakeppni, varð í tíunda sæti í fjölþraut og var varamaður inn í úrslit á tvíslá. Hún keppti einnig á sínu fyrsta Evrópumóti í áhaldafimleikum á Ítalíu á vormánuðum. Hún keppti síðan á Norður  Evrópumótinu í Dublin í september þar sem kvennaliðið varð í þriðja sæti í fjölþraut. Lilja Katrín er enn ung að árum og á hraðri uppleið í áhaldafimleikum, hún er frábær fyrirmynd fyrir ungar fimleikastúlkur í landinu. Við erum spennt að fylgjast með henni á komandi árum bæta enn við sig og blómstra. 

Hvatningabikar karla hlaut Ágúst Ingi Davíðsson. Ágúst keppti með landsliðinu á norðurlandamóti í Osló þar sem þeir unnu til söguleg bronsverðlauna. Hann tók einnig þátt á heimsbikarmóti í Ungverjalandi þar sem hann náði fjórða besta árangri á gólfi og tryggði sér þar með öruggt sæti í úrslitunum. Þar framkvæmdi hann svo frábærar æfingar sem skilaði honum fjórða sæti. Hann er búinn að bæta sig mikið og er hvergi nær hættur og verður spennandi að sjá hversu langt hann kemst.

Hvatningarbikar Gerplu í Hópfimleikum fá stelpurnar sem lentu í 2. sæti á norðurlandamóti unglinga 2024. Þær náðu miklum framförum á árinu og heldur betur toppuðu sig á réttum tíma og komu á óvart þegar þær enduðu í 2 sæti. Þær gerðu frábært gólf, keyrðu kraftmikla dýnu og enduðu svo á flugeldasýningu á trampólíni með öll stökk lent. Með þessari framúrskarandi frammistöðu náðu þær hæstu samanlagðri einkunn sinni í vetur. Við horfum með miklum vonum til framtíðar þessara efnilegu stúlkna og hlökkum til að fylgjast með þeirra áframhaldandi framförum og árangri á fimleikavellinum þróast og ná nýjum hæðum í framtíðinni. Þetta lið var skipað af Elínu Þóru, Elísu Margréti, Emmu, Helen Maríu, Írisi Björk, Karen Leu, Katrín Mist, Lilju Þórdísi, Margréti Júlíu, Söru Maríu, Tinnu og Þóreyju Helgu. 

Þjálfarar ársins í áhaldafimleikum fékk Þorgeir Ívarsson. Hann hefur sýnt mikinn metnað í þjálfun alveg frá upphafi og það skín í gegn svo mikil ástríða í hans vinnu. Hann lifir og hrærist í fimleikum, hvort sem það eru áhaldafimleikar kvenna, karla, hópfimleika eða aðrar tegundir af fimleikum þá er eiginlega klárt mál að Þorgeir sé með það á hreinu.  Þorgeir er skipulagður, agaður í vinnubrögðum og nær virkilega vel til stelpnanna sem hann þjálfar. Hann gefur vel af sér en er ákveðinn og heldur góðum aga. Við erum virkilega stolt af honum og hlökkum til að hafa hann í okkar liði næstu áratugina eða svo og fylgjast með honum blómstra í starfi og leik. 

Þjálfarar ársins í hópfimleikum fékk Rebekka Rut Stefánsdóttir. Rebekka Rut Stefánsdóttir er fædd og uppalin í Gerplu. Fyrst sem iðkandi, svo sem iðkandi og þjálfari og nú síðustu ár sem þjálfari og deildarstjóri grunn og framhaldshópa drengja og einnig hópfimleikadeilda drengja. Rebekka hefur staðið sig mjög vel í þjálfun hópa sinna undanfarin ár og tekur mikla ábyrgð í sinni þjálfun og utanumhaldi. Hún hugsar vel um iðkendur sína og skila af sér góðum iðkendum. 

Þjálfari ársins hjá grunn og framhaldsdeild fékk Linda Björk Árnadóttir.  Hún hefur þjálfað hjá okkur í Gerplu í mörg ár og staðið sig vel. Á þessum árum sem hún er búin að vera hjá okkur  hefur hún þjálfað hina ýmsu fimleikahópa. Hún hefur þjálfað stelpur frá aldrinum 5 –13 ára í grunn- og framhaldshópum og einnig  í keppnisdeild áhaldafimleika kvenna. Linda er einstaklega jákvæður og góður þjálfari, hún er skipulögð, nær vel til stelpanna og er hvetjandi. Við í Gerplu erum virkilega ánægð að hafa Lindu sem þjálfara hjá okkur og vonum að hún verði í mörg mörg ár í viðbót. 

Þjálfari ársins almennrar deildar fékk Rósa Benediktsdóttir. Hún hefur þjálfað hjá okkur í Gerplu í nokkur ár og hefur á þessum tíma verið frábær viðbót við starfið okkar. Rósa hefur ásamt fleirum unnið vel að uppbyggingu fimleika fyrir einstaklinga með fötlun. Einnig hefur hún verið með umsjón með æfingum fyrir fullorðna sem hefur gengið vel. Hún er samviskusöm, skipulögð og dugleg í sínu starfi. Það er augljóst að hún hefur mikinn metnað fyrir íþróttinni og var hún í sumar með yfirumsjón með sumarnámskeið Gerplu og stóð sig einstaklega vel í því hlutverki. Við í Gerplu erum virkilega heppinn að hafa hana sem þjálfara hjá okkur.

Garpur Gerplu fékk Hildur Maja Guðmundsdóttir. Hún hefur æft fimleika í Gerplu frá unga aldri, hún hefur verið í landsliði Íslands í áhaldafimleikum í ára raðir og valin í mörg landsliðsverkefni á síðustu árum.   Hildur Maja varð í öðru sæti í fjölþraut á Íslandsmótinu á árinu og bikarmeistari með liði sínu í Gerplu, þar sem þær unnu með yfirburðum. Hildur Maja var síðan valin í landslið Íslands til að keppa á Norðurlandamótinu í Osló í apríl. Hún átti hreint magnað mót og sýndi hversu frábær fimleikakona hún er, hún stóð uppi sem Norðurlandameistari í fjölþraut og skrifaði sig í sögubækurnar, ásamt því vann liðið einnig Norðurlandameistara titil. Hildur Maja bætti svo í safnið hún gerði sér svo lítið fyrir og varð einnig Norðurlandameistari á stökki og slá. Hreint magnaður árangur hjá henni Hildi okkar. Hildur Maja keppti á Norður Evrópumóti í Dublin í september, þar varð hún í þriðja sæti í liðakeppni og komst í úrslit á tvíslá.  Frábært ár hjá henni Hildi Maju.

Sjálfboðaliði ársins var hún Stefanía Reynisdóttir. Stefanía kom í Gerplu ekki fyrir svo mörgum árum og hefur allt frá fyrsta degi látið af sér kveða í ýmsum verkefnum. Hún hefur verið ein af lykilkonum í Máttarstólpum, tekið að sér 17.júní, undirbúið sjoppuvaktir, aðstoðað við Þorrablót og síðastliðin ár hefur hún verið í forsvari fyrir fjáröflunarnefnd iðkenda Gerplu og keyrt hana áfram í þágu iðkenda. Stefanía á alltaf tíma til að leggja hönd á plóg og erum við henni afar þakklát fyrir það. 

Hildur Maja Guðmundsdóttir – Sérstök viðurkenning fyrir eftirtektarverða frammistöðu á liðnu ári  þar sem hún varð Norðurlandameistari í Fjölþraut, önnur íslenskra kvenna. 

Thelma Aðalsteinsdóttir – Sérstök viðurkenning fyrir eftirtektarverða frammistöðu á liðnu ári þar sem hún varð Norður-evrópumeistari á öllum áhöldum sögulegur árangur mótsins frá upphafi og besti árangur keppanda á norðurevrópumóti. Thelma skrifaði sig einnig í sögubækurnar á Evrópumótinu í áhaldafimleikum sem haldið var á Rimini í byrjun maí. Hún framkvæmdi nýja æfingu á tvíslá sem mun bera nafn hennar í alþjóðlegu dómarabókinni Code of Points. Æfingin er framhringur tengt beint í framheljarstökk á efri ránni eða á fimleikamáli Weiler framhringur tengt í Comaneci heljarstökk. Æfingin fékk gildið E í dómarabókinni og verður hér eftir þekkt sem “Adalsteinsdottir“. 

Special olympics

Í haust fór fram vinamót í Lorenskog í Noregi sem ber heitið International Friendship Competition. Keppt var eftir special olympics reglum í áhaldafimleikum. Þetta var í fyrsta skipti sem Gerpla sendir keppendur til að taka þátt í þessu skemmtilega móti. Mótið spannaði yfir tvo keppnisdaga, þar sem undanúrslit og úrslit fóru fram. Þátttakendur stóðu sig virkilega vel. Gerpla sendi sjö fulltrúa til keppni en þau eru: Birkir Eiðsson, Davíð Þór Torfason, Helgi Magnússon, Magnús Orri Arnarson, Tómas Örn Rúnarsson, Elva Björg Gunnarsdóttir og Katrín Ling Yu Þórbergsdóttir. Við viljum því heiðra þau sérstaklega á uppskeru hátíðinni og taka við viðurkenningu. 

Norðurlandamót unglinga

Í apríl fór fram Norðurlandamót unglinga í hópfimleikum sem haldið var í Lund í Svíþjóð. Þvílikt og annað eins afrek að koma tveimur liðum á Norðurlandamót unglinga. Þetta var í fjórða skiptið sem Gerplu hefur tekist það. Þetta var mjög skemmtilegt ferli fyrir bæði iðkendur og þjálfara. Þetta var verkefni sem var búið að vinna að í tvö ár og var hörð keppni að komast inn á þetta mót. Bikarmót í hópfimleikum var úrtökumót fyrir Norðurlandamótið og var mikil spenna á því móti þar sem að það var mjög mjótt á munum og keppnin var æsispennandi. Mót sem þetta gefur iðkendum tækifæri til að stíga sín fyrstu skref á stórmóti, þar sem þau mæta liðum frá öðrum löndum. Það var gaman að sjá hvernig allir iðkendur stóðu sig og tóku þátt í þessari ferð. Allir gáfu allt sitt, ekki bara á æfingum, heldur líka í samveru og gleði á mótinu sjálfu. Ferðin var ekki bara keppni heldur líka fullt af góðum minningum, nýjum vináttum og óteljandi brosum. Það var frábær upplifun sem mun lífga minningarnar í langan tíma.

Starfsmerki Fimleikasambandsins veitti Sólveig Jónsdóttir framkvæmdarstjóri sambandsins og þeir sem fengu voru þau Björk Guðmundsdóttir, Elva Björg Gunnarsdóttir, Kristinn Þór  Guðlaugsson og Rakel Másdóttir.

You may also like...