Uppskeruhátíð Gerplu vegna ársins 2022
Uppskeruhátið Gerplu var haldin hátíðleg laugardaginn 7. janúar í veislusal félagsins. Mikill og góður árangur náðist á árinu sem leið og voru iðkendur, þjálfarar og sjálfboðaliðar heiðraðir.
Afreksbikar í áhaldafimleikum karla var Valgarð Reinhardsson enda eitt besta ár Valgarðs að baki. Hann landaði fjórum Íslandsmeistaratitlum, vann til tveggja silfurverðlauna á Norðurlandamóti sem og á Norður-Evrópumóti. Hann átti mjög gott Evrópumót og vann sér inn þátttökurétt á Heimsmeistaramótinu í Liverpool svo eitthvað sé nefnt. Hvatningabikarinn kom í hlut Valdimars Matthíassonar en hann hefur sýnt miklar framfarir á liðnu ári og sýnir mikinn metnað í sínum fimleikum.
Afreksbikar í áhaldafimleikum kvenna hlaut Thelma Aðalsteinsdóttir. Thelma átti sitt besta fimleikaár á sínum ferli og standa Norðurlandameistaratitill á jafnvægisslá og Íslandsmeistaratitill í fjölþraut uppúr. En einnig vann hún sér inn þátttökurétt á HM í Liverpool eftir að hafa sýnt frábærar æfingar á Evrópumóti. Hvatningabikarinn hlaut Hildur Maja Guðmundsdóttir en hún átti mjög gott ár og sýnir mikinn metnað í sínum æfingum. Hún sýndi mikla þrautsegju er hún þurfti að vinna sig upp eftir erfið veikindi í upphafi síðasta árs og kom sterkari til baka. Hún náði tveimur Íslandsmeistaratitlum og vann silfur á gólfi á Norðurlandamóti.
Í hópfimleikadeild fékk 1. flokkur kvenna afreksbikarinn enda handhafar allra mögulegra titla á Íslandi árið 2022. Virkilega flottur hópur sem er vel að þessu kominn. 1.flokkur mix fékk hvatningabikarinn en þar er á ferðinni mjög skemmtilegt lið sem æfir vel og á framtíðina fyrir sér.
Þjálfarar ársins í hópfimleikum voru þau Edda Sigríður Sigfinnsdóttir og Kristinn Þór Guðlaugsson en þau voru bæði í þjálfarateymi 1. flokks síðustu ár. Þau hafa mikinn metnað fyrir sinni þjálfun, ná vel til iðkenda og leggja jafnmikið í vinnuna utan sem innan salarins. Þau eru bæði mikill fengur fyrir félagið.
Þjálfarar ársins í áhaldafimleikum voru þeir Ferenc Kováts og Róbert Kristmannsson. Ferenc stýrði liði Gerplu til sigurs á bikarmóti ásamt sterku þjálfarateymi og þjálfar bæði Íslandsmeistara fullorðina og unglinga. Hann tók við kvennalandsliði Íslands s.l. ár og hampaði liðið einum Norðurlandameistara sem og 3.sæti í liðakeppni ásamt fleiri verðlaunum. Róbert Kristmannsson er einn af burðarstólpum Gerplu og sýndi frábæran árangur á árinu með sína stráka. Liðið hans varð Bikarmeistari og hampaði hann öllum þremur verðlaunahöfum í fjölþraut. Hæst ber þó að nefna árangur á Norður Evrópumóti þar sem lið hans skipað Gerpludrengjum skrifaði söguna er þeir unnu til bronsverðlauna í liðakeppni.
Þjálfari ársins í grunn- og framhaldsdeild var Telma Rut Sæþórsdóttir. Telma er góður leiðtogi sem sínir iðkendum sínum áhuga og hvetur þá áfram í sínum fimleikum. Hún er mjög áreiðanleg og hefur mjög góða nærveru.
Þjálfari ársins í almennri deild er Lilja Árnadóttir. Lilja þjálfar hópa í félaginu þar sem iðkendur eru með fötlun. Hún hefur einstaka lagni í þjálfun þeirra, er glaðlynd og er hrókur alls fagnaðar. Hún er klárlega eitt af leynivopnum þjálfarateymis Gerplu.
Garpur Gerplu var Bryndís Guðnadóttir en nafnbótina hlaut hún fyrir að vera valin í All-Star lið Evrópumótsins 2022 fyrir glæsilega frammistöðu í gólfæfingum.
Félagsmálaskjöldinn hlaut Anna Kristjana Egilsdóttir fyrir að vera mikilvægur hlekkur í teymi Máttarstólpa og unnið ötullega fyrir félagið iðkendum til heilla.
Sjálfboðaliði ársins var valinn Arnar Þór Ólafsson en hann hefur verið iðinn við að aðstoða félagið við flutninga á áhöldum á milli húsa oft með engum fyrirvara.
Á árinu hefur Gerpla veitt þeim iðkendum viðurkenningu sem hafa staðið sig vel í alþóðlegum keppnum en stelpurnar í kvennalandsliðinu voru eftir að fá sína viðurkenningu. Þær Agi, Dagný Björt, Hildur Maja og Thelma fengu viðurkenningu fyrir frábæran árangur á Norðurlandamótinu í áhaldafimleikum síðastliðið sumar en þær unnu til bronsverðlauna í liðakeppni á mótinu.